Landsliðskonan Katla María Magnúsdóttir hefur samið við danska handknattleiksliðið Holstebro Håndbold sem leikur í næst efstu deild. Hún staðfesti tíðindin við Handkastið. Katla María hefur leikið með uppeldisfélagi sínu, Selfossi, undanfarin ár en reyndi fyrir sér um skeið hjá Stjörnunni.
Katla María flutti til Jótlands í sumar með unnusta sínum, Jóhannesi Berg Andrasyni, sem samdi við úrvalsdeildarlið TTH Holstebro til tveggja ára.
Katla María var í landsliðshópnum á HM 2023 en hefur síðan lítið komið við sögu. Alvarleg ökklameiðsli í undanúrslitum Poweradebikarsins snemma árs 2024 settu m.a. strik í landsliðsferlinn.
Fetar í fótspor
Meðal Íslendinga sem áður hafa leikið með Holstebro eru Rut Arnfjörð Jónsdóttir, Þórey Rósa Stefánsdóttir og Berta Rut Harðardóttir. Hún var með félaginu 2022/2023.
Rut og Þórey Rósa voru í sigurliði Holstebro í EHF-keppninni, nú Evrópudeildinni, vorið 2013. Rut lék með Holstebro Håndbold í sex ár, frá 2008 til 2014 en Þórey Rósa í tvö tímabil.
Árið 2020 var rekstur karla- og kvennaliða Holstebro aðskilinn Frá 2021 hefur kvennalið Holstebro leikið í næst efstu deild og vantað herslumun upp á færast upp í úrvalsdeild.
Konur – helstu félagaskipti 2025