- Auglýsing -
- Auglýsing -

Frábær byrjun í forsetabikarnum – stórsigur á Grænlendingum

Thea Imani Sturludóttir og Hildigunnur Einarsdóttir á fullu í vörninni í leiknum Nord Arena í kvöld. Mynd/EPA
- Auglýsing -

Íslenska landsliðið hóf keppni í forsetabikarkeppni heimsmeistaramótsins í handknattleik með stórsigri á grænlenska landsliðinu, 37:14, í Nord Arena í Frederikshavn í Danmörku í kvöld. Eins og tölurnar gefa til kynna voru yfirburðir miklir. Strax að loknum fyrri hálfleik var munurinn orðinn 11 mörk, 19:8.

Næsti andstæðingur íslenska landsliðsins verða liðsmenn Paragvæ sem tapaði fyrir kínverska landsliðinu, 23:20, fyrr í dag.

Fyrsti áfanginn að baki

Leikmenn íslenska landsliðsins hafa lýst því yfir að þeir hafi komið í einum tilgangi til Frederikshavn; til að vinna forsetabikarinn. Óhætt er að segja að fyrstu áfanginn á þeirri leið hafi tekist vel. Íslenska liðið lék af fullum þunga frá upphafi til enda. Reyndar var örlítill skrekkur í mannskapnum á fyrstu mínútum. Grænlendingar skoruðu þrjú fyrstu mörkin áður en íslenska landsliðið tók leikinn yfir.

Varnarleikurinn var mjög góður. Grænlenska liðinu var aldrei hleypt áfram. Hafdís Renötudóttir og Elína Jóna Þorsteinsdóttir voru vel með á nótunum í markinu, ekki síst Hafdís í síðari hálfleik. Sóknarleikurinn gekk eins og vel smurð vél með fjölda hraðaupphlaupa.

Leikmenn íslenska liðsins léku af þunga allt til leiksloka í stað þess að slaka aðeins á klónni. Fjórtán af 16 leikmönnum skoruðu, þar á meðal Katla María Magnúsdóttir í sínum fyrsta leik á mótinu.

Semsagt mjög góð byrjun, flott fyrir sjálfstraustið. Nú er að fylgja þessu eftir í næstu leikjum.

Margir Grænlendingar

Fjöldi grænlenskra áhorfenda kom á leikinn frá ýmsum bæjum á Jótlandi. Settu þeir skemmtilegan svip á leikinn þótt þeim hafi ekki tekist að slá vopnin úr höndum íslenska landsliðsins sem var margfalt sterkara inni á leikvellinum.


Mörk Íslands: Þórey Anna Ásgeirsdóttir 10/2, Þórey Rósa Stefánsdóttir 4, Perla Ruth Albertsdóttir 4, Thea Imani Sturludóttir 3, Hildigunnur Einarsdóttir 3, Díana Dögg Magnúsdóttir 3, Katla María Magnúsdóttir 2, Andrea Jacobsen 2, Sandra Erlingsdóttir 1, Lilja Ágústsdóttir 1, Elín Rósa Magnúsdóttir 1, Elísa Elíasdóttir 1, Elín Jóna Þorsteinsdóttir 1, Hafdís Renötudóttir 1.

Varin skot: Hafdís Renötudóttir 9, 60% – Elín Jóna Þorsteinsdóttir 5, 38,5%.

Handbolti.is var í Nord Arena og fylgdist með leiknum í textalýsingu hér fyrir neðan.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -