Elliði Snær Viðarsson var frábær með Gummersbach í kvöld þegar liðið vann MT Melsungen, 29:28, á heimavelli í annarri umferð þýsku 1. deildarinnar í handknattleik. Elliði skoraði átta mörk í jafn mörgum skotum og var næst markahæsti leikmaður liðsins sem hefur þar með unnið tvær fyrstu viðureignir sínar í deildinni undir stjórn Guðjóns Vals Sigurðssonar.
MT Melsungen er hinsvegar ekki í eins góðri stöðu án stiga. Hópur leikmanna liðsins er frá keppni vegna meiðsla og veikinda.
Teitur Örn Einarsson skoraði tvö mörk fyrir Gummersbach í þremur skotum en hann lék í hægra horni hluta leiksins. Teitur Örn og Elliði Snær létu einnig til sín taka í vörninni.
Arnar Freyr Arnarsson skoraði fjögur mörk fyrir MT Melsungen. Reynir Þór Stefánsson var ekki í leikmannahópi Melsungen.
Blær markahæstur
Blær Hinriksson skoraði sex mörk og var markahæstur leikmanna Leipzig annan leikinn í röð. Það dugði skammt á heimavelli gegn Lemgo sem vann sína fyrstu viðureign á tímabilinu, 34:29. Leipzig-liðið er áfram stigalaust.
Stöðuna í þýsku 1. deildinni og í fleiri deildum evrópsks handknattleiks er að finna hér.