- Auglýsing -
- Auglýsing -

Frábær frammistaða en tap í framlengingu fyrir Evrópumeisturunum

Inga Dís Jóhannsdóttir sækir að vörn Ungverja í leiknum í kvöld. /Mynd/IHF
- Auglýsing -

Íslenska landsliðið tapaði fyrir Evrópumeisturum Ungverja eftir framlengdan leik í átta liða úrslitum heimsmeistaramóts 20 ára landsliða kvenna í handknattleik, 34:31, í Jane Sandanski Arena í Skopje í kvöld. Íslenska liðið lék frábærlega í síðari hálfleik og jafnaði metin, 29:29, rétt fyrir lok venjulegs leiktíma eftir að hafa verið sjö mörkum undir í hálfleik, 19:12. Stríðsgæfan var með ungverska liðinu í framlengingunni og leikur það til undanúrslita.

Tvær meiddust – Elísa hlaut höfuðhögg

Ofan á annað þá meiddust tveir leikmenn í leiknum. Tinna Sigurrós Taustadóttir féll snemma úr leik vegna meiðsla. Á sjöundu mínútu síðari hálfleiks fékk Elísa Elíasdóttir, ein sú leikreyndasta úr hópnum, þungt höfuðhögg og var borin af leikvelli í börum. Var farið með hana undir læknishendur. Þrátt fyrir áföll og að vera talsvert undir lögðu leikmenn íslenska liðsins alls ekki árar í bát, þvert á móti. Þær hertu róðurinn og mátti minnstu muna að þær legðu Evrópumeistarana.

Svíar á morgun

Ísland leikur í krossspili um sæti fimm til átta við Svíþjóð klukkan 16 á morgun. Sigurlið þeirra viðureignar leikur um fimmta sætið á sunnudaginn. Tapliðið um sjöunda sæti HM sama dag.

Gríðarlegur styrkur

Leikmenn íslenska liðsins sýndu gríðarlegan styrk í síðari hálfleik að koma til baka eftir að hafa verið sjö mörkum undir gegn feykisterku ungversku liði sem hafði unnið alla leiki sína í mótinu til þessa með miklum yfirburðum. Leikur íslenska liðsins, ekki síst varnarleikurinn í síðari hálfleik og markvarslan, undirstrikar hversu öflugt og reynt íslenska liðið er orðið.
Leikmenn liðsins og þjálfarar geta svo sannarlega borið höfuðið ennþá hærra eftir þennan leik þótt sárt hafi verið að bíta í eplið súra í leikslok.

Mörk Íslands: Lilja Ágútsdóttir 7, Elín Klara Þorkelsdóttir 6, Inga Dís Jóhannsdóttir 5, Alfa Brá Oddsdóttir Hagalín 3, Elísa Elíasdóttir 3, Embla Steindórsdóttir 3, Sonja Lind Sigsteinsdóttir 2, Brynja Katrín Benediktsdóttir 2.
Varin skot: Ethel Gyða Bjarnasen 10/1, 26%, Anna Karolina Ingadóttir 1, 17%.

Ítarlegri tölfræði.

HMU20: Dagskrá og úrslit síðustu leikdagana

Handbolti.is var í Jane Sandanski Arena og fylgdis með leiknum í textalýsingu hér fyrir neðan.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -