Íslenska landsliðið í handknattleik kvenna vann afar mikilvægan sigur á færyska landsliðinu í annarri umferð 7. riðils undankeppni Evrópumótsins í handknattleik kvenna í Høllinni á Hálsi í Þórshöfn, 28:23, eftir að hafa verið marki undir eftir kaflaskiptan fyrri hálfleik, 12:11.
Þar með er íslenska liðið komið með fjögur stig eftir tvo leiki í undankeppninni og er á góðri leið með að ná takmarki sínu að öðlast keppnisrétt á Evrópumótinu eftir ár. Undankeppninni verður framhaldið í lok febrúar. Næst á dagskrá er þátttaka á HM í lok nóvember og framan af desember. Landsliðið er nú með byr í seglum þegar undirbúningur fyrir HM fer að hefjast.
Upphafskaflinn var mjög góður hjá íslenska liðinu. Eftir 11 mínútur var staðan, 7:3. Sóknarleikurinn gekk eins og smurð vél og varnarleikurinn eins og lagt var upp með. Elín Jóna var frábær í markinu. Eins og hendi væri veifað þá kom babb í sóknarbátinn. Hver sóknin á fætur annarri rann út í sandinn með misheppnuðum skotum eða sóknarbrotum. Færeyingar létu ekki segja sér það tvisvar, skoruðu fimm mörk í röð á 10 mínútna kafla og komust yfir, 8:7. Síðustu 10 mínútur fyrri hálfleik voru í járnum. Turíð Arge Samuelsen skoraði tvö síðustu mörk færeyska liðsins fyrir hálfleik úr hægra horni, það síðara þegar 5 sekúndur voru eftir af leiktímanum, 12:11.
Fljótlega í síðari hálfleik var ljóst að meiri ákveðni væri í íslenska liðinu. Varnarleikurinn gekk mikið betur og Elín Jóna Þorsteinsdóttir tók til við að verja af miklum móð, eins og hún gerði í síðari hálfleik. Sóknarleikurinn gekk sem smurð vél undir styrkri stjórn Söndru Erlingsdóttur. Thea Imani Sturludóttir sem náði sér ekki á strik í fyrri hálfleik fór hamförum við að skora og leika samherja sína uppi. Upp úr miðjum síðari hálfleik var íslenska liðið komið með fjögurra marka forskot, 20:16. Eftir það var aldrei litið um öxl.
Smátt og smátt sprakk liðið út eins og blóm að vori eftir því sem á hálfleikinn leið.
Mörk Íslands: Sandra Erlingsdóttir 6, Thea Imani Sturludóttir 6, Hildigunnur Einarsdóttir 5, Andrea Jacobsen 3, Díana Dögg Magnúsdótir 3, Elín Klara Þorkelsdóttir 3, Þórey Rósa Stefánsdóttir 1, Sunna Jónsdóttir 1.
Varin skot: Elín Jóna Þorsteinsdóttir 14, 38,8%.
Mörk Færeyja: Jana Mittún 6, Elsa Eghiolm 5, Turið Arge Samulesen 4, Lukka Arge 2, Maria Nólsoy 2, Bynhild Pálsdóttir 1, Natasja Hammer 1, Lív Poulsen 1, Guðrið Á Borg 1.
Varin skot: Annika Friðheim Petersen 5, 20% – Rakul Wardum 3, 27%.
Handbolti.is var í Høllinni á Hálsi og fylgdist með leiknum í textalýsingu hér fyrir neðan.