- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Frábærlega útfærður leikur

Guðmundur Þórður Guðmundsson, landsliðsþjálfari var að vanda á tánum á hliðarlínunni í kvöld. Mynd/EPA
- Auglýsing -

„Leikurinn var frábærlega útfærður og leikinn,“ sagði Guðmundur Þórður Guðmundsson, landsliðsþjálfari í handknattleik karla, eftir 15 marka stórsigur á landsliði Alsír á HM í handknattleik í Egyptalandi í kvöld, 39:24.


„Þetta leit kannski út fyrir að vera auðvelt en var það ekki. Við komum hinsvegar mjög vel innstilltir í leikinn. Varnarleikurinn var frábær frá upphafi til enda. Við vorum vissir um að Alsírbúar myndu koma framarlega á móti okkur og reyna að slá okkur út af laginu. Undirbúningurinn lá í aað leggja upp einfalda hluti og endurtaka þá hvað eftir annað og gera svo árásir í framhaldinu. Það gekk fullkomlega upp. Eins þegar Alsírbúar breyttu um varnarleik þá komum við inn með annað sem hentaði á móti og eins og áður var það sama leikið aftur og aftur og gekk afar vel. Eins var ég ánægður með Björgvin Pál í markinu. Hann kom inn með afar mikilvægar vörslur, varnarleikurinn frábær og síðan hraðaupphlaupin og leikurinn í heild hreint framúrskarandi,“ sagði Guðmundur Þórður.


Greinilegt var að dagskipunin var að byrja af krafti og slá vopin úr höndum Alsírbúa strax í upphafi. Sama var upp á teningnum í síðari hálfleik. „Ég lagði þunga áherslu á það við strákana í hálfleik að þeir yrðu að halda áfram, alls ekki mætti slaka neitt á og það tókst. Hvert mark skiptir máli því við tökum úrslit með okkur í milliriðla. Þess vegna tók ég mjög stutt hálfleikshlé svo menn gætu farið sem fyrst út á leikvöllinn og haldið sér heitum strax frá fyrstu mínútu síðari hálfleiks,“ sagði Guðmundur Þórður ánægður og lagði ríka áherslu á hversu góður varnarleikurinn hafi verið.
„Allir leikmenn léku vel. Bjarki Már, Ólafur, Alexander og fleiri. Við ákváðum að gefa Alexander góðan tíma í sókninni að þessu sinni,“ sagði Guðmundur Þórður Guðmundsson, landsliðsþjálfari í samtali við handbolta.is í Kaíró í kvöld.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -