Ekki tókst að ljúka þýsku bikarkeppninni í handknattleik karla í vor vegna kórónuveirunnar. Fjögur lið voru eftir í keppninni og nú stendur til að úrslitahelgi bikarkeppni þessa árs fari fram 27. og 28. febrúar á næsta ári. Að öðru leyti stendur ekki til að leikið verði í bikarkeppninni í karlaflokki á þessu ári.
Bjarki Már Elísson, markakóngur þýsku 1. deildarinnar á síðasta keppnistímabli segir, það vera mikið gleðiefni að til standi að halda úrslitahelgi bikarkeppninnar fyrir síðasta tímabil í febrúar á næsta ári enda er Lemgo, lið hans, eitt þeirra fjögurra liða sem eftir eru í keppninni.
„Það var risastórt fyrir Lemgo að komast í undanúrslit bikarsins enda um meiriháttar viðburð að ræða sem jaðrar við að vera eins stórt og úrslitahelgi Meistaradeildarinnar. Áfanginn hafði mikið að segja bæði fjárhagslega og félagslega fyrir Lemgo. Þess vegna voru það mikil vonbrigði þegar keppnistímabilinu lauk svo skyndilega í vor og allt leit út fyrir að ekkert yrði úr bikarhelginni,” sagði Bjarki Már í samtali við handbolta.is á dögunum.
„Að sama skapi er það frábært að ákveðið var að úrslitahelgin fari fram þótt það verði ekki fyrr en í febrúar. Það verður búhnykkur fyrir okkur að þráðurinn verður tekinn upp á ný. Lemgo hefur ekki komist í undanúrslit bikarsins frá 2002,” sagði Bjarki Már ennfremur.
Lemgo mætir Kiel í undanúrslitum og Hannover-Burgdorf og Melsungen, sem Guðmundur Þórður Guðmundsson þjálfar og Arnar Freyr Arnarsson leikur með, leika til undanúrslita í hinni viðureigninni.
Úrslitahelgi þýsku bikarkeppninnar í karlaflokki hefur um árabil farið fram í hinni glæsilegu íþróttahöll í Hamborg, þeirri sömu og Íslendingar og Danir léku tvíframlengda eftirminnilega viðureign um sæti í undanúrslitum HM fyrir 13 árum.
„Það er alltaf frábær stemning og vonandi verður farið að draga verulegu úr kórónuveirunni í febrúar svo hægt verði að halda alvöru bikarhelgi,” segir Bjarki Már sem tók einu sinni þátt í úrslitahelgi bikarkeppninnar með fyrra liði sínu, Füchse Berlin.