- Auglýsing -
- Auglýsing -

Frændur okkar voru ívið sterkari í Kaplakrika

U21 árs landsliðið sem tók þátt í síðari vináttuleiknum við Færeyinga fyrir hálfum mánuði. Mynd/HSÍ
- Auglýsing -

Færeyska landsliðið, skipað leikmönnum 21 árs og yngri, hafði betur gegn íslenskum jafnöldrum sínum í síðari vináttuleiknum í Kaplakrika í dag, 31:30, eftir að hafa verið fimm mörkum yfir í hálfleik, 18:13. Í gær vann íslenska liðið með átta marka mun, 31:23. Bæði lið taka þátt í heimsmeistaramóti 21 árs landsliða sem hefst 20. júní.

Eftir kaflaskiptan fyrri hálfleik var færeyska liðið fimm mörkum yfir. Pauli Jacobsen, sem einnig er markvörður A-landsliðs Færeyja, varði vel auk þess sem hornamaðurinn frábæri, Hákun West av Teigum, kom inn í liðið í dag og fór á kostum. Hákun á einnig sæti í A-landsliði Færeyja. Hann gengur til liðs við þýska liðið Füchse Berlin í sumar.

U21 árs landslið Færeyinga sem vann íslenska landsliðið í Kaplakrika. Mynd/HSÍ

Íslensku piltarnir komu af krafti inn í síðari hálfleikinn og minnkuðu strax muninn niður í tvö mörk. Tók þá við jafn og spennandi leikur þar sem munurinn á liðunum var tvö til þrjú mörk. Á lokamínútunum minnkaði íslenska liðið muninn niður í eitt mark og fékk tækifæri til að jafna. Tækifærið rann íslensku piltunum úr greipum og Færeyingar fögnuðu verðskulduðum sigri, 31:30.

Sterka leikmenn vantaði í bæði lið í dag. Andri Már Rúnarsson, Guðmundur Bragi Ástþórsson, Arnór Viðarsson og Benedikt Gunnar Óskarsson voru á meðal þeirra sem ekki voru með íslenska liðinu. Hjá Færeyingum vantaði m.a. Elías Ellefsen á Skipagøtu sem verður liðsmaður THW Kiel í sumar og frænda hans Óla Mittún.

Mörk Íslands: Einar Bragi Aðalsteinsson 8, Andri Finnsson 6, Jóhannes Berg Andrason 6, Þorsteinn Leó Gunnarsson 3, Símon Michael Guðjónsson 3, Stefán Orri Arnalds 2, Elvar Elí Hallgrímsson 1, Tryggvi Þórisson 1.

Adam Thorstensen varði 8 skot og Jón Þórarinn Þorsteinsson varði 5 skot.

Mörk Færeyja: Hákun West av Teigum 11, Pauli Mittún 6, Rói Ellefsen á Skipagøtu 4, Pauli Høj 3, Kristoffur Bjørgvin 2, Ísak Vedelsbøl 2, Ovi Lützen 2, Janus Dam Djurhuus 1.

Pauli Jacobsen varði 18 skot í markinu.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -