Franska landsliðið reyndist sterkara en það íslenska í viðureign liðanna í annarri umferð milliriðlakeppni EM í handknattleik í Lanxess Arena í Köln í dag. Sjö marka sigur, 39:32, sem var meiri munur en var lengst af leiksins. Forskot Frakka flakkaði frá þremur og upp í sex mörk í 50 af 60 mínútum leiksins. Í hálfleik var munurinn þrjú mörk, 17:14.
Næsti leikur verður við Króata á mánudaginn. Ennþá er möguleiki á að ná markmiðinu um Ólympíusæti. Til þess verður íslenska liðið að vinna báða leikina sem eftir eru og vona um leið að Austurríki kræki ekki í mikið fleiri stig í þeim þremur leikjum sem eftir eru.
Hinsvegar er alveg úr myndinni að íslenska landsliðið leiki um fimmta sætið eins og á EM fyrir tveimur árum.
Sóknarleikur íslenska landsliðsins gekk vel að þessu sinni, ekki síst í síðari hálfleik. Í fyrri hálfleik bar á gamalkunnum tónum. Færanýting var ekki sem best verður á kosið og eins var nokkuð um að sendingar samherja á milli gengu ekki sem skildi.
Í síðari hálfleik var sóknarleikurinn lengst af góður.
Haukur Þrastarson kom inn á með ferska vinda, sendingar og mörk. Viggó Kristjánsson var besti sóknarmaður liðsins, eins stundum áður, og Óðinn Þór Ríkharðsson kom inn með blússandi sjálfstrausti og nýtti færi sín vel. Elliði Snær Viðarsson stendur alltaf fyrir sínu í vörn sem sókn. Sömu sögu má segja um Elvar Örn Jónsson. Gísli Þorgeir Kristjánsson lék sinn besta leik í mótinu í síðari hálfleik.
Varnarleikurinn var erfiður gegn frábærum frönskum sóknarmönnum. Þeir höfðu ráð undir rifi hverju, hvort sem íslenska landsliðið lék framarlega eða færði sig aftar í vörninni. Því miður náðu markverðirnir sér ekki á strik að þessu sinni.
Þrettán leikmenn franska landsliðsins skoruðu a.m.k. eitt mark í leiknum sem segir mikið um breiddina í leikmannahópnum.
Mörk Íslands: Viggó Kristjánsson 6/1, Óðinn Þór Ríkharðsson 6, Elliði Snær Viðarsson 6, Haukur Þrastarson 4, Elvar Örn Jónsson 3, Gísli Þorgeir Kristjánsson 2, Ómar Ingi Magnússon 2/1, Arnar Freyr Arnarsson 1, Aron Pálmarsson 1, Janus Daði Smárason 1.
Varin skot: Viktor Gísli Hallgrímsson 6, 16,2% – Björgvin Páll Gústavsson 0.
Mörk Frakklands: Melvyn Richardsson 6, Ludovig Fabregas 6, Dika Mem 5, Nedim Remili 5, Nikola Karabatic 3, Benoit Kounkoud 2, Luka Karabatic 2, Nicolas Tournat 2, Élohim Prandi 2, Hugo Descat 2/1, Dyklan Nahi 2, Yanis Lenne 1, Karl Konan 1.
Varin skot: Samir Bellahcene 13/1, 30,2% – Rémi Desbonnet 2/1, 66,7%.
Tölfræði leiksins hjá HBStatz.
Handbolti.is var í Lanxess-Arena og fylgdist með leiknum í textalýsingu hér fyrir neðan.