„Við höfum æft vel og hópurinn litið vel út. Við erum spennt fyrir komandi tímabili,” segir Rakel Dögg Bragadóttir þjálfari kvennaliðs Fram í handknattleik í samtali við handbolta.is spurð um væntanlegt keppnistímabil í handboltanum.
Fram tekur á móti Stjörnunni í 1. umferð Olísdeildar í Lambhagahöllinni í Úlfarsárdal klukkan 19.30 í kvöld.
Fáeinar breytingar voru á leikmannahópi Fram í sumar. Darija Zecevic Radulovic markvörður kom frá Stjörnunni og örvhenta skyttan Hildur Lilja Jónsdóttir frá Aftureldingu. Harpa María Friðgeirsdóttir flutti til háskólanáms í Danmörku, Elna Ólöf Guðjónsdóttir flutti til Noregs og Ingunn María Brynjarsdóttir markvörður fór að láni til ÍR sem einnig leikur í Olísdeildinni.
Byggt ofan á sama grunn
„Við höldum áfram að vinna með svipaðan grunn og á síðasta tímabili auk þess sem Arnar [Pétursson aðstoðarþjálfari] kemur inn með sína punkta,“ segir Rakel Dögg.
„Fram er klúbbur sem vill alltaf vera í fremstu röð. Eitt okkar markmiða fyrir tímabilið er að eiga heimaleikjarétt í úrslitakeppninni. Það er ljóst að Valur er með gríðarlega sterkt lið sem hefur bætt í frá síðasta tímabili þegar liðið vann alla titla. Valur er liðið til að vinna í vetur. Þess utan þá hafa Haukar styrkt lið sitt,“ segir Rakel Dögg sem sér fram á skemmtilegt keppnistímabil í Olísdeildinni en hún nefnir einnig fleiri lið sem eiga eftir að leggja allt í sölurnar á leiktíðinni.
„Ég vona að deildin verði jafnari en áður með minna bili á milli liða en við sáum í fyrra,“ segir Rakel Dögg Bragadóttir þjálfari Fram.
Lengra myndskeiðsviðtal er við Rakel Dögg í myndskeiði efst í fréttinni.
Sjá einnig: Leikjadagskrá Olísdeilda.
Konur – helstu félagaskipti 2024
Verðum klár í slaginn við Hauka
Tími uppbyggingar stendur yfir hjá Stjörnunni