Fram færðist aftur upp í annað sæti Olísdeildar kvenna í handknattleik í dag með níu marka sigri á Gróttu í Hertzhöllinni á Seltjarnarnesi, 32:23, eftir að hafa verið þremur mörkum yfir í hálfleik, 14:11. Sigurinn var e.t.v. ekki eins þægilegur og lokatölurnar gefa til kynna því aðeins var eins marks munur á liðunum, 20:19, þegar 13 mínútur voru til leiksloka. Framarar léku hinsvegar við hvern sinn fingur á lokamínútunum án þess að Grótta fengi rönd við reist.
Grótta barðist hart fyrir því að fá eitthvað út úr leiknum enda er liðið neðst með fimm stig þegar það á fimm leiki eftir, aðeins tveimur stigum á eftir ÍBV. Fram er jafnt Haukum með 26 stig þegar hvort lið á fimm viðureignir eftir óleiknar.
Sem fyrr segir þá reyndu leikmenn hvað þeir gátu til þess að velgja Framliðinu undir uggum en segja má að reynsla og gæði hafi gert gæfumuninn á lokakaflanum.
Staðan og næstu leikir í Olísdeildum.
Mörk Gróttu: Karlotta Óskarsdóttir 7, Ída Margrét Stefánsdóttir 6, Rut Bernódusdóttir 3, Katrín Anna Ásmundsdóttir 3, Elísabet Ása Einarsdóttir 1, Edda Steingrímsdóttir 1, Hrafnhildur Hekla Grímsdóttir 1, Arndís Áslaug Grímsdóttir 1.
Varin skot: Andrea Gunnlaugsdóttir 9, 23,7% – Anna Karólína Ingadóttir 0.
Mörk Fram: Þórey Rósa Stefánsdóttir 6, Steinunn Björnsdóttir 6, Lena Margrét Valdimarsdóttir 5, Alfa Brá Hagalín 5, Harpa María Friðgeirsdóttir 3, Sóldís Rós Ragnarsdóttir 2, Karen Knútsdóttir 2, Berglind Þorsteinsdóttir 1, Íris Anna Gísladóttir 1, Elín Ása Bjarnadóttir 1.
Varin skot: Darija Zecevic 10, 34,5% – Ethel Gyða Bjarnasen 2, 33,3%.
Tölfræði leiksins hjá HBStatz.