Íslands,- og deildarmeistarar KA/Þórs í handknattleik kvenna taka á móti Fram í dag í meistarakeppni HSÍ í KA-heimilinu. Flautað verður til leiks klukkan 14.15. Áhorfendur eru velkomnir á leikinn sem einnig verður í beinni útsendingu á Stöð2 Sport. Handbolti.is mun einnig gera leiknum skil eftir fremsta megin.
Sömu lið mættust í meistarakeppni HSÍ fyrir ári og hafði KA/Þór betur, 30:23. Framarar eiga harma að hefna í dag.
Segja má að sigurinn í Meistarakeppninni hafi slegið tóninn hjá KA/Þórsliðið sem vann bæði Olísdeildina í vor og Íslandsmeistaratitilinn í fyrsta sinn. KA/Þórsliðið tryggði sér deildarmeistaratitilinn í Framhúsinu í vor í lokaumferðinni þegar liðin skildu jöfn, 27:27.
Helstu breytingar á liðunum frá síðasta keppnistímabili:
Unnur Ómarsdóttir til KA/Þórs frá Fram.
Ólöf Maren Bjarnadóttir til Hauka frá KA/Þór.
Tinna Valgerður Gísladóttir til Fram frá Gróttu.
Hafdís Renötudóttir til Fram frá Lugi.
Írena Björk Ómarsdóttir til Fram frá FH.
Emma Olsson til Fram frá Önnereds í Svíþjóð.
Lena Margrét Valdimarsdóttir til Stjörnunnar frá Fram.
Sara Sif Helgadóttir til Vals frá Fram.
Harpa Elín Haraldsdóttir til Fjölnis/Fylkis frá Fram.
Steinunn Björnsdóttir sleit krossband í hné í mars.