Framarar náðu yfirhöndinni í úrslitarimmunni um Íslandsmeistaratitilinn í handknattleik karla í kvöld með frábærum leik og sigri á Val, 37:33, í fyrstu viðureign liðanna um Íslandsmeistaratitilinn í karlaflokki. Þeir réðu lögum og lofum í leiknum alla síðari hálfleik lokamínúturnar í síðari hálfleik hvar þeir voru með þriggja marka forskot að honum loknum, 20:17.
Næsti leikur liðanna verður í Lambhagahöll Framara í Úlfarsárdal á mánudagskvöldið.
Gríðarlegur hraði var í leiknum strax frá upphafi og eftir um 10 mínútur höfðu verið skoruð 17 mörk. Boltinn gekk vallarhelminga á milli áður en maður vissi af. Ljóst var að leikmenn komu úthvíldir til leiks eftir langt hlé. Þeir voru tilbúnir að láta slag standa.
Viðureignin var jöfn og spennandi. Liðin skiptust á um að vera marki yfir allt þar til á allra síðustu mínútum að Framarar tóku af skarið og náðu forskoti, ekki síst eftir að slakar sóknir Valsara og einföld mistök.
Staðan var 20:17, að loknum fyrri hálfleik, Fram í vil sem auk þess að skora 20 mörk höfðu brennt af tveimur vítaköstum.
Leikmenn Fram komu út með miklum látum í síðari hálfleik og bættu við forskot sitt. Þeir sundurléku vörn Vals hvað eftir annað og náðu mest sjö marka forskoti, 32:25, þegar um 11 mínútur voru til leiksloka. Ekki stóð steinn yfir steini í vörn Vals og þar af leiðandi var markvarslan ekki góð.
Val tókst eftir leikhlé að minnka muninn í eitt mark, 33:32, eftir að leikmenn Fram misstu einbeitingu um stund og gerðu sig seka um nokkur mistök. Nær komust Valsmenn ekki og Framarar áttu síðustu mínúturnar. Þeir unnu sanngjarnan sigur.
Reynir Þór Stefánsson átti stórkostlegan leik og fór fyrir frábæru Framliði í kvöld. Hann skoraði 11 mörk og átti sex stoðsendingar. Réðu Valsmenn ekkert við hann í þessum ham.
Ísak Gústafsson var bestur Valsmanna og sá eini sem virtist eiga nokkuð auðvelt með að skora. Margir leikmenn Vals voru undir pari, ekki síst í vörninni.
Mörk Vals: Ísak Gústafsson 11, Úlfar Páll Monsi Þórðarson 5/2, Þorvaldur Örn Þorvaldsson 4, Þorgils Jón Svölu Baldursson 3, Magnús Óli Magnússon 2, Bjarni í Selvindi 2, Viktor Sigurðsson 2, Róbert Aron Hostert 2, Allan Norðberg 1, Agnar Smári Jónsson 1.
Varin skot: Björgvin Páll Gústavsson 12/1, 25,5%.
Mörk Fram: Reynir Þór Stefánsson 11, Ívar Logi Styrmisson 5, Þorsteinn Gauti Hjálmarsson 4, Eiður Rafn Valsson 3/1, Kjartan Þór Júlíusson 3, Rúnar Kárason 3, Dagur Fannar Möller 2, Erlendur Guðmundsson 2, Marel Baldvinsson 1, Magnús Öder Einarsson 1.
Varin skot: Breki Hrafn Árnason 8, 34,8% – Arnór Máni Daðason 6/1, 25%.
Tölfræði leiksins hjá HBStatz.
Handbolti.is var á Hlíðarenda og fylgdist með leiknum í textalýsingu hér fyrir neðan.