Fram vann öruggan sigur á neðsta liði Olísdeildar karla í handknattleik í Lambhagahöllinni í kvöld, 37:33. Framarar gerðu út um leikinn í fyrri hálfleik en þeir voru með 10 marka forskot að honum loknum gegn slöku liði ÍR sem hefur aðeins náð í eitt stig í fyrstu sjö leikjum tímabilsins. Fram er með sex stig og mjakaðist upp að hlið ÍBV og HK. ÍBV á leik til góða gegn Aftureldingu á morgun í Mosfellsbæ klukkan 15 í síðasta leik 7. umferðar.
Áfall í fyrstu sókn
Framarar urðu fyrir áfalli strax í fyrstu sókn þegar samherjarnir Þorsteinn Gauti Hjálmarssonar og Dagur Fannar Möller rákust sama eftir að sá fyrrnefndi hafði skoraði fyrsta mark leiksins eftir 30 sekúndur. Gauti kom ekkert meira við sögu en hann virtist fá þungt högg á nefið við áreksturinn. Dagur Fannar lá einnig eftir með áverka á höfði og kom heldur ekki aftur til leiks.
Þrátt fyrir skakkaföll þá réðu Framarar lögum og lofum í fyrri hálfleik. Þeir skoruðu að vild og áttu ekki í vandræðum með að verjast. Arnór Máni Daðason var vel á verði í markinu.
ÍR sprækari í síðari hálfleik
Í síðari hálfleik dró aðeins saman með liðunum. ÍR-ingar hresstust og söxuðu aðeins á forskot Fram en tókst aldrei ógna sigrinum. Einar Jónsson þjálfari Fram tefldi fram öllum leikmönnum sínum og var sennilega tilneyddur vegna meiðsla í hópnum auk þess sem fyrir dyrum stendur Evrópuleikur á þriðjudaginn. Um tíma voru fjórir örvhentir leikmenn saman í sókninni, þar af lék Rúnar Kárason í stöðu vinstri skyttu, sennilega í eitt af fyrstu skiptum á ferlinum.
Allir skoruðu
Þegar upp var staðið skoruðu allir leikmenn Fram mark í leiknum að markvörðunum undanskildum.
Jökull fékk rautt
Það var ÍR-ingum áfall að missa sinn besta mann, Jökul Blöndal Björnsson, af velli með beint rautt spjald eftir 10 mínútur í síðari hálfleik. Jökull þótti hafa gengið harðlega fram í vörninni. Hann hafði þá skorað 7 af 18 mörkum ÍR.
Bernard Kristján Owusu Darkoh bar oft uppi sóknarleik ÍR í síðari hálfleik og skoraði öll átta mörk sín á síðustu 30 mínútunum.
Mörk Fram: Ívar Logi Styrmisson 8/4, Arnar Snær Magnússon 6, Max Emil Stenlund 4, Erlendur Guðmundsson 4, Theodór Sigurðsson 3, Kjartan Þór Júlíusson 3, Lúðvík Thorberg B. Arnkelsson 2, Dagur Fannar Möller 1, Rúnar Kárason 1, Eiður Rafn Valsson 1, Sigurður Bjarki Jónsson 1, Þorsteinn Gauti Hjálmarsson 1, Arnþór Sævarsson 1, Torfi Geir Halldórsson 1.
Varin skot: Arnór Máni Daðason 22, 42,3% – Breki Hrafn Árnason 0.
Mörk ÍR: Bernard Kristján Owusu Darkoh 8, Baldur Fritz Bjarnason 8/4, Jökull Blöndal Björnsson 7, Róbert Snær Örvarsson 4, Eyþór Ari Waage 4, Patrekur Smári Arnarsson 2.
Varin skot: Ólafur Rafn Gíslason 11, 28,2% – Alexander Ásgrímsson 2, 18,2%.
Tölfræði leiksins hjá HBStatz.
Staðan og næstu leikir í Olísdeildum.