Fram bættist í kvöld í hóp þeirra liða sem eiga sæti í 8-liða úrslitum Powerade-bikarsins í handknattleik. Framarar kunnu vel við sig á gamla heimavellinum í Safamýri og unnu stórsigur á Víkingi, 43:24, eftir að hafa verið 10 mörkum yfir að loknum fyrri hálfleik, 20:10.
Víkingar skoruðu fyrsta mark leiksins. Fram svaraði með fimm mörkum í röð og sló liðið tóninn fyrir það sem koma skyldi. Vörn Víkinga náði ekki að halda aftur af leikmönnum Fram auk þess sem Arnór Máni Daðason varði allt hvað af tók í marki piltanna úr Lambhagahöllinni.
Um hreint formsatriði var að ræða fyrir Framara í síðari hálfleik, þ.e. til að vinna leikinn. Einar Jónsson þjálfari Fram dreifði álaginu á milli leikmanna sinna sem unnu með 19 marka mun þegar leiknum lauk. Talsverð vinna er framundan hjá Aðalsteini Eyjólfssyni og liðsmönnum Víkings, alltént í samanburði við eitt besta lið Olísdeildar karla.
Mörk Víkings: Kristófer Snær Þorgeirsson 5, Sigurður Páll Matthíasson 5, Kristján Helgi Tómasson 4, Ásgeir Snær Vignisson 3, Igor Mrsulja 2, Benedikt Emil Aðalsteinsson 2, Stefán Scheving Guðmundsson 2, Þorfinnur Máni Björnsson 1.
Varin skot: Heiðar Snær Tómasson 5, Bjarki Garðarsson 3.
Mörk Fram: Reynir Þór Stefánsson 6, Marel Baldvinsson 5, Þorsteinn Gauti Hjálmarsson 5, Theodór Sigurðsson 4, Marel Baldvinsson 4, Arnar Snær Magnússon 3, Rúnar Kárason 3, Max Emil Stenlund 3, Ívar Logi Styrmisson 3, Arnþór Sævarsson 2, Erlendur Guðmundsson 2, Dagur Fannar Möller 2, Magnús Öder Einarsson 1.
Varin skot: Arnór Máni Daðason 9, Breki Hrafn Árnason 7.
Poweradebikar karla – fréttasíða.