Handknattleiksdeild Fram hefur ákveðið að allur aðgangseyrir að leik Fram og Víkings í Olísdeild karla sem fram fer í Framhúsinu kl. 14 á laugardaginn renni til stuðnings við Ingunni Gísladóttur og fjölskyldu hennar til að standa straum vegna aðgerðar sem dóttir Ingunnar gekkst undir á dögunum vegna alvarlegs og sársaukafulls sjúkdóms, endómetríósa.
Allt að tveggja ára bið var eftir aðgerð á Landspítala. Þess vegna var gripið til þess ráðs að leita hjálpar hjá þekktum sérfræðingi á einkastofu. Hann gerði aðgerðina en Sjúkratryggingar Íslands greiða ekki kostnaðinn og því fellur hann á þær mæðgur, segir í tilkynningu frá Fram sem barst til handbolta.is.
Þar segir ennfremur:
„Íþróttafélög þrífast ekki án sjálfboðaliða og einn okkar allra tryggasti og duglegasti sjálfboðaliði sem hefur starfað fyrir handboltann í Fram í mörg ár er Ingunn Gísladóttir. Hún hefur unnið ótrúlega óeigingjart starf árum saman í þágu deildarinnar.
Við í Fram höfum því tekið þá ákvörðun að styðja við bakið á okkar konu og munum láta allan ágóða af leik FRAM og Víkings næstkomandi laugardag renna til Ingunnar og fjölskyldu hennar. Þessi styrkur mun aðstoða Ingunni við að standa straum af þessum mikla kostnaði sem er rúmlega 1 milljón króna. Ingunn á það skilið frá okkur enda fáir með stærra Framhjarta en hún.
Við hvetjum alla til þess að koma á leikinn og borga sig inn, miðaverð 2.000 krónur. Allur ágóði mun renna óskertur til Ingunnar og fjölskyldu. Við munum einnig vera með áritaða landsliðstreyju af Karen Knútsdóttur á uppboði fram til föstudagsins í næstu viku. Upphafsboð er 25.000 krónur.
Frjáls framlög og þeir sem ekki komast á leikinn geta lagt sitt að mörkum með því að leggja inn á styrktarreikning Ingunnar og fjölskyldu 0331-26-003849, kt. 100269-3849,“ segir í tilkynningu handknattleiksdeildar Fram.