Mosfellingnum Elvari Ásgeirssyni líkar lífið hjá danska handknattleiksliðinu Ribe-Esbjerg. Svo mjög að hann hefur skrifað undir nýjan samning sem rennur sitt skeið á enda vorið 2026. Fyrri samningur gilti fram á mitt næsta ár. Ribe-Esbjerg sagði frá þessu í morgunsárið. Elvar kom til Ribe-Esbjerg sumarið 2022 eftir eins og hálfs árs veru hjá Nancy í Frakklandi.
Áhugi víða að
Í tilkynningu Ribe-Esbjerg segir ánægjulegt að Elvar hafi kosið að framlengja samning sinn við félagið, ekki síst í ljósi þess að áhugi hafi verið frá öðrum félögum innan og utan Danmerkur.
Elvar er 29 ára gamall og lék með Stuttgart fyrst eftir að hann yfirgaf uppeldisfélag sitt, Aftureldingu sumarið 2019. Veran hjá Stuttgart varð styttri en efni stóðu til og lauk í ársbyrjun með samningi við Nancy.
Vegnar vel í stóru hlutverki
Elvar átti góðu gengi að fagna hjá Ribe-Esbjerg á síðasta keppnistímabili og skoraði 101 mark og átti 88 stoðsendingar.
Hann var í stóru hlutverki hjá liðinu sem tókst í vor að komast í átta liða úrslit úrvalsdeildarinnar í fyrsta sinni í nokkur ár. Nú um stundir er Ribe-Esbjerg í fjórða sæti með fjögur stig að loknum þremur leikjum.
Sæti í landsliðinu
Til viðbótar hefur Elvar sleitulaust átt sæti í íslenska landsliðinu frá Evrópumótinu sem fram fór í Ungverjalandi og Slóvakíu í upphafi árs 2022. Alls er landsleikirnir 19.
„Ég hef tröllatrú á liðinu og er viss um að við getum tekið fleiri skref til framfara á þessu og á næstu keppnistímabilum,“ er m.a. haft eftir Elvari í fyrrgreindri tilkynningu þar sem hann ber einnig lof á samstöðu innan liðsins og síðast en ekki síst, að vel fari um hann og fjölskyldu hans í Esbjerg.