- Auglýsing -
- Auglýsing -

Framundan er okkar síðasta tækifæri á EM

Viggó Kristjánsson landsliðsmaður og leikmaður Leipzig. Mynd/Hafliði Breiðfjörð
- Auglýsing -

„Skiljanlega er róðurinn aðeins farinn að þyngjast hjá okkur. Ekki erum við aðeins ósáttir við frammistöðuna í gær gegn Frökkum heldur heilt yfir með frammistöðu okkar í mótinu til þessa. Við fórum inn í mótið með háleit markmið en höfum því miður ekki náð að framkalla alvöru liðsframmistöðu,“ sagði Viggó Kristjánsson landsliðsmaður í handknattleik í samtali við handbolta.is í morgun á fundi landsliðsins með fjölmiðlum á hóteli þess í miðborg Kölnar.

„Skýringuna höfum við ekki. Þess vegna hafa hlutirnir ekki verið lagaðir,” sagði Viggó spurður um skýringar á stöðu mála hjá landsliðinu.

Verðum að ná í orku

„Við eigum ennþá möguleika á fjórum stigum og ná einhverjum markmiðum á mótinu. Þrátt fyrir að við séum þungir að morgni þessa dags þá verðum við að ná okkur í orku í dag. Við getum ekki gengið út úr mótinu með eitt jafntefli og einn sigur,“ sagði Viggó.

Framundan er leikur á morgun við Króata sem eru e.t.v. ekki heldur á þeim stað í keppninni sem þeir vildu. Viggó sagði Króata hafa verið sterka í þeim leikjum sem hann hefur séð með þeim í keppninni þótt það hafi ekki skilað þeim mörgum stigum til þessa.

Kominn tími á breytingar

„Króatar eru alltaf sterkir og íslenska landsliðinu hefur ekki gengið vel gegn þeim í gegnum tíðina. Ég held að kominn sé tími til þess að breyta því á morgun. Ég veit ekki hvort leikurinn hafi mikla þýðingu fyrir Króata en fyrir okkur skiptir leikurinn miklu máli. Segja má að það þetta sé okkar síðasta tækifæri til þess að ná markmiði okkar í mótinu,“ sagði Viggó og vísaði þá til markmiðsins um að krækja í sæti í forkeppni Ólympíuleikanna.

„Leikurinn á morgun snýst um að sýna úr hverju við erum gerðir. Hver og einn verður að búa sig sem best undir leikinn,“ sagði Viggó Kristjánsson landsliðsmaður í handknattleik í samtali við handbolta.is í morgun.

Lengri hljóðritaða útgáfu af viðtalinu er að finna hér fyrir neðan.

Viðureign Íslands og Króatíu hefst klukkan 14.30 á morgun, mánudag, og fer fram í Lanxess Arena í Köln.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -