Handknattleiksdeild Hauka og handknattleiksmaðurinn efnilegi, Freyr Aronsson, hafa skrifað undir nýjan samning til þriggja ára. Freyr, sem leikur sem leikstjórnandi varð 17 ára nú í sumar, hefur þegar fengið eldskírn sína með meistaraflokki en á síðasta tímabili lék hann 16 leiki og skoraði í þeim 19 mörk.
Freyr er einn af efnilegustu leikmönnum landsins og var hann í sumar í sigurliði U17 ára landsliðs Íslands á Ólympíuhátið Evrópuæskunnar þar sem hann skoraði 17 mörk í 5 leikjum.
Freyr á ekki langt að sækja handboltahæfileikana því báðir foreldrar hans, Aron Kristjánsson og Hulda Bjarnadóttir, hafa bæði leikið fyrir meistaraflokka Hauka sem og eldri bræður hans, Darri og Jakob. Foreldrarnir eru bæði fyrrverandi landsliðsfólk auk fleiri skyldmenna.
„Það verður gaman að fylgjast áfram með Frey á parketinu á Ásvöllum og sjá hann halda áfram að þroskast og bæta sig sem handboltaleikmaður á komandi tímabili. Áfram Haukar!,“ segir í tilkynningur Hauka í dag.