FH-ingar fögnuðu sigri í upphafsleik sínum í Olísdeild karla í frábærri stemningu í Kaplakrika í kvöld, leik sem markaði upphafið að endurkomu Arons Pálmarssonar í íslenskum handknattleik eftir 14 ára fjarveru.
Lokatölur, 30:28, fyrir FH sem einnig var tveimur mörkum yfir í hálfleik, 19:17. Aron stóð undir væntingum allra í leiknum. Hann skoraði fimm mörk og var með 10 sköpuð marktækifæri, þar af sjö stoðsendingar. Segja má að um fullkomna heimkomu hafi verið að ræða hjá Aroni.
Annar FH-ingur sem kominn er heim eftir langa útiveru, Daníel Freyr Andrésson markvörður, var mjög góður. Hann varði jafnt og þétt allan leikinn og kórónaði frammistöðu sína með því að verja skot eftir hraðaupphlaup frá Blæ Hinrikssyni þegar 40 sekúndur voru til leiksloka. Blær gat minnkað muninn í eitt mark og opnað leikinn. Í stað þess innsiglaði Jóhannes Berg Andrason sigur FH með 30. markinu áður en Þorsteinn Leó Gunnarsson skoraði 28. mark Aftureldingar á síðustu sekúndu leiksins.
FH-ingar voru með yfirhöndina frá upphafi til enda. Aftureldingarmenn byrjuðu illa og lentu undir fjórum til fimm mörkum áður en þeim tókst að snúa aðeins við blaðinu á síðustu mínútum fyrri hálfleiks og minnka muninn í tvö mörk áður en leiktíminn var úti, 19:17.
FH-ingar voru áfram sterkari í síðari hálfleik. Forskotið var þrjú til fjögur mörk. Lánleysi virtist vera yfir leikmönnum Aftureldingar. Í hvert sinn sem þeir áttu möguleika á skjóta FH-ingum skelk í brignu þá snerust vopnin í höndum þeirra.
Eins og áður segir var stemningin stórkostleg í Kaplakrika á leiknum í kvöld. Áhorfendur voru a.m.k. 1.500 og frábærlega staðið af hálfu FH í allri umgjörð leiksins. Vonandi er þetta aðeins forsmekkurinn að því sem koma skal.
Mörk FH: Jóhannes Berg Andrason 8, Einar Bragi Aðalsteinsson 8, Aron Pálmarsson 5, Jakob Martin Ásgeirsson 5, Jón Bjarni Ólafsson 2, Birgir Már Birgisson 1, Ásbjörn Friðriksson 1.
Varin skot: Daníel Freyr Andrésson 14, 34,1%.
Mörk Aftureldingar: Þorsteinn Leó Gunnarsson 9, Árni Bragi Eyjólfsson 7, Leó Snær Pétursson 4, Blær Hinriksson 3, Þorvaldur Tryggvason 2, Jakob Aronsson 1, Birgir Steinn Jónsson 1, Ihor Kopyshynskyi 1.
Varin skot: Jovan Kukobat 7/1, 30,4% – Brynjar Vignir Sigurjónsson 6, 31,6%.
Handbolti.is var í Kaplakrika og fylgdist með leiknum í textalýsingu hér fyrir neðan.