Landsliðsmaðurinn í handknattleik Viggó Kristjánsson er sterklega orðaður við HC Erlangen samkvæmt frétt SportBild í dag. Þar kemur fram að HC Erlangen sé reiðubúið að greiða 250.000 evrur, jafnvirði 35 milljóna króna, fyrir að fá Viggó til sín strax í upphafi næsta árs en hann er samningsbundinn Leipzig til ársins 2027.
Hermt er í fréttinni að Viggó hafi þegar farið í læknisskoðun hjá HC Erlangan. Hann muni taka þátt í tveimur síðustu leikjum Leipzig fyrir áramótin en verða liðsmaður Erlangen þegar keppni hefjist á nýjan leik í þýsku 1. deildinni í byrjun febrúar að loknu heimsmeistaramótinu í handknattleik. Ennfremur kemur fram að Rúnar Sigtryggssonar þjálfari Leipzig og samstarfsmenn séu þegar farnir að líta í kringum sig eftir leikmanni til að hlaupa í skarðið fyrir Viggó út leiktíðina.
Eiga peninga – vantar árangur
HC Erlangen er í næst neðsta sæti þýsku 1. deildarinnar með fimm stig eftir 15 leiki. Koma Viggó til félagsins er einn liður í lífróðri þess fyrir sæti sínu í deildinni. Þrátt fyrir slakt gengi þá hefur félagið talsvert af peningum á milli handanna, m.a. til leikmannakaupa. Erlangen fékk töluvert fyrir söluna á Manuel Zehnder til SC Magdeburgar í sumar. Zehnder greip mikið óyndi í herbúðum félagsins og gat ekki hugsað sér að leika með liðinu aftur eftir lánsvist hjá Eisenach tímabilið 2023/2024.
Ekki nýtt af nálinni
SportBild sagði fyrst frá áhuga HC Erlangen á að krækja í Viggó í lok nóvember.
Tengdafaðir Neuer
Félagið er með bækistöðvar í Nürnberg. Einn helsti forvarsmaður HC Erlangen er Carsten Bissel lögmaður. Hann er tengdafaðir Manuel Neuer markvarðar knattspyrnuliðsins Bayern München og fyrrverandi landsliðsmarkvarðar. Sonur Bissel, Christopher, er fyrirliði HC Erlangen.
Bissel eldri er mikið í mun að HC Erlangen haldi sæti sínu í deild þeirra bestu. Hann skipti út þjálfara liðsins í haust og réði Martin Schwalb. Sú aðgerð ein og sér hefur ekki nægt til þess að lappa upp á gengi HC Erlangen.