„Fyrst og fremst er ég vonsvikinn yfir frammistöðu okkar. Við áttum heilt yfir ekki góðan dag og Litáar unnu verðskuldaðan sigur,“ sagði Viggó Kristjánsson, landsliðsmaður í handknattleik í samtali við handbolta.is eftir tap íslenska landsliðsins fyrir Litáen, 29:27, í undankeppni EM í Vilnius í kvöld.
„Ég hef svo sem engar skýringar á upphafskaflanum á reiðum höndum svona strax eftir og leik og af hverju við mættum ekki ákveðnari til leiks en raun var á. En það er ljóst að upphafskaflinn gerði framhaldið mjög erfitt fyrir okkur. Það er mjög erfitt að vinna upp sex til sjö marka forskot,“ sagði Viggó sem tók undir að tæknimistökin hafi verið alltof mörg en alls tapaði íslenska liðið boltanum í 14 skipti.
Viggó sagðist vona að ekki hafi verið um vanmat að ræða. Menn hafi gert sér ljóst að landslið Litáa væri sterkara en það sem íslenska liðið lék við á þriðjudagskvöld í Tel Aviv. „Við vissum vel að innan landsliðs Litháen væri nokkrir mjög góðir leikmenn. Ég get bara fátt annað sagt en að við séum allir miður okkar yfir þeim leik sem við sýndum að þessu sinni. Ég hef eiginlega fá svör,“ sagði Viggó sem tók undir að úrslitin væri högg fyrir liðið.
„Við ætluðum okkur að vinna og vera öruggir um sæti í lokakeppni EM eftir þennan leik og vera um leið komnir lengra sem lið, það er að geta klárað leiki eins og þennan þar sem mikið er undir á útivelli. Tapið er högg,“ sagði Viggó Kristjánsson, landsliðsmaður í handknattleik í samtali við handbolta.is í kvöld.