Sveinn Jóhannsson leikmaður Noregsmeistara Kolstad er í íslenska landsliðinu sem mætir Bosníu í kvöld. Hann hefur ekki leikið landsleik síðan 2. maí 2021 þegar íslenska landsliðið vann Litáen á Ásvöllum í lokaumferð undankeppni EM 2022. Leikurinn sá var leikinn fyrir luktum dyrum.
Sveinn var valinn í hópinn fyrir EM í janúar 2022 þegar undirbúningur stóð yfir fyrir Evrópumótið í Ungverjalandi en nokkrum dögum áður en lagt var af stað meiddist hann afar illa á hné og átti í meiðslunum í nærri ár. Sveinn átti stórleik í fyrrnefndur leik gegn Litáen á Ásvöllum.
Síðustu tvö ár hefur Sveinn verið að vinna sig jafnt og þétt til baka eftir meiðslin og lék m.a. með Skjern í Danmörku skamman tíma og var síðan í hálft annað ár með GWD Minden í þýsku 2. deildinni allt þangað til hann flutti til Þrándheims í sumar í framhaldi af samningi við norska meistaraliðið.
Viðureign Íslands og Bosníu hefst í Laugardalshöll í kvöld klukkan 19.30. Þeir sem ekki komast í Laugardalshöllina geta fylgst með útsendingu RÚV frá leiknum eða textalýsingu handbolti.is.
Markmiðið er skýrt
„Ég er spenntur fyrir að vera mættur til leiks aftur og fá tækifæri til þess að láta ljós mitt skína. Mitt markmið er að spila mig inn í landsliðið á nýjan leik. Flóknara er það ekki,“ sagði Sveinn þegar handbolti.is hitti hann að máli fyrir æfingu landsliðsins í byrjun vikunnar.
Verð að hafa ljósin kveikt
„Ég er svolítið nýr í þessu hóp. Nokkrar breytingar hafa átta sér stað síðan ég var síðast með auk þess sem annar þjálfari er núna með landsliðið. Tíminn til að koma sér inn í hlutina og kynnast strákunum er skammur. Maður verður að hafa ljósin kveikt og reyna að vera í sem bestu samskiptum við strákana og læra inn á þá. Þá vonandi getur vonandi vel,“ sagði Sveinn sem líkar lífið vel hjá Kolstad.
Nóg að gera hjá Kolstad
„Ég hef jafnt og þétt verið að vinna mig inn í liðið hjá Kolstad á leiktíðinni en það hefur verið mikið að gera hjá okkur, jafnt í deildinni og í Meistaradeildinni. Ég hef fengið talsvert hlutverk og líður mjög vel hjá félaginu,“ sagði Sveinn og bætir við að það séu mikil viðbrigði að fara frá félaginu í þýsku 2. deildarinnar og til félags sem á lið í Meistaradeild Evrópu eins og raunin er hjá Kolstad.
Uppselt á leikinn í kvöld gegn Bosníu.
„Maður þarf að vera á tánum í hverjum leik. Það þýðir ekkert hálfkák,“ sagði Sveinn Jóhannsson landsliðsmaður í handknattleik ákveðinn áður en hann stígur inn á dúkinn í Laugardalshöll laust fyrir klukkan 19.30 í kvöld.
- Ísland er í riðli með Bosníu, Georgíu og Grikklandi í riðli undankeppni Evrópumótsins 2026. Framundan eru tveir leikir hjá íslenska liðinu í undankeppninni. Auk leiksins við Bosníu í kvöld mætir íslenska landsliðið Georgíumönnum í Tíblisi á sunnudaginn.
- Næstu leikir íslenska landsliðsins verða um miðjan mars, heima og heima gegn Grikklandi. Undankeppninni lýkur í byrjun maí með leikjum við Bosníu ytra og heima á móti Georgíu.
- Undankeppni EM er leikin í átta riðlum með fjórum liðum í hverjum. Tvö efstu lið hvers riðil tryggir sér farseðilinn í lokakeppni EM sem fram fer í Danmörku, Noregi og Svíþjóð frá 15. janúar til 1. febrúar 2026. Einnig komast fjögur landslið sem hafna í þriðja sæti í lokakeppnina.
- Þegar hefur verið ákveðið að íslenska landsliðið leikur í riðli sem fram fer í Kristianstad takist liðinu að tryggja sér þátttökurétt.
A-landslið karla – fréttasíða.