„Fyrsti landsleikurinn var 2003. Það ár er svo langt í burtu í minningunni en ég man engu að síður vel eftir honum þótt ég muni ekki eftir mörgum landsleikjum enda eru þeir að verða nærri 300,“ segir markvörðurinn þrautreyndi, Björgvin Páll Gústavsson, sem hefur sitt 24. ár með landsliðinu í upphafi næsta árs. Enginn á lengri feril með íslenska landsliðinu en Björgvin Páll.
Óraði ekki fyrir þessu
„Ekki óraði mig fyrir því í leiknum Ólafsvík að ég ætti eftir að standa aftur í marki landsliðsins árið 2024. Mér er efst í huga þakklæti og auðmýkt að hafa fengið tækifæri til þess að eiga svo langan feril með landsliðinu og fá að halda áfram,“ segir Björgvin Páll og bætir við að mikið vatn hafi runnið til sjávar frá fyrsta landsleiknum. Fyrst og fremst hafi hann þroskast mikið sem persóna og handboltamaður.“
Björgvin Páll á lengstan feril allra með íslenska landsliðinu í handknattleik karla, 23 ár. Það 24. hefst með fyrsta landsleiknum á nýju ári, 2026. Björgvin Páll er í EM-hópnum sem Snorri Steinn Guðjónsson landsliðsþjálfari valdi á dögunum. Tími Guðjóns Vals Sigurðssonar og Ólafs Stefánssonar með landsliðinu náði yfir 22 ár hjá hvorum.
Fyrsta landsleikur Björgvins Páls var gegn Póllandi í Ólafsvík 1. nóvember 2003; 28:28.
Aðrir markverðir með langan feril með landsliðinu: *)
20 ár: Guðmundur Hrafnkelsson 1986-2005.
16 ár: Hjalti Einarsson 1959-1974.
15 ár: Sigmar Þröstur Óskarsson 1981-1995.
14 ár: Bergsveinn Bergsveinsson 1987-2000.
*)-heimild Sigmundur Ó. Steinarsson.
EM í janúar verður 19. stórmót Björgvins Páls með landsliðinu, þar af níunda Evrópumótið. Auk þess hefur hann tekið þátt í átta heimsmeistaramótum og tvennum Ólympíuleikum. Guðjón Valur hefur tekið þátt í flestum stórmótum íslenskra landsliðsmanna, 22.
Stórmótaleikirnir Björgvins Páls eru 111. Hann er í öðru sæti á eftir Guðjóni Val sem lék 137 leiki á stórmótum með landsliðinu. Næstir á eftir Björgvini Páli eru Ólafur Stefánsson með 106 leiki og Ásgeir Örn Hallgrímsson 105.
Blátt gólf og margir Pólverjar
Spurður hvort hann muni eftir fyrsta landsleiknum segir Björgvin svo vera. „Minni mitt er slakt þegar kemur að einstökum landsleikjum enda eru þeir orðnir nærri 300. Ég man vel eftir fjórum leikjum. Þar á meðal er fyrsti landsleikurinn í Ólafsvík í nóvember 2003. Fyrst og fremst var rútuferðin vestur og heim aftur mjög minnisstæð vegna þess að margt kom upp á á leiðinni. Meðal annars gleymdist Ólafur Stefánsson í Borgarnesi. Leikurinn í Ólafsvík fór fram í nýju húsi með bláu gólfi. Við vorum nánast eins og á útivelli því það voru svo margir pólskir verkamenn á pöllunum að styðja sitt lið en leikurinn var við pólska landsliðið. Meðal leikmanna pólska landsliðsins var Karol Bielecki sem maður leit mikið upp til á þessum tíma.”

35 ár skilja að
„Mér gekk mjög vel í leiknum. Náði að verja mörg skot í síðari hálfleik og lék með Guðmundi Hrafnkelssyni sem var aðeins eldri og reyndari en ég,“ segir Björgvin Páll þegar hann rifjar upp fyrsta landsleikinn en 35 ár skilja að Guðmund og Viktor Gísla Hallgrímsson, núverandi samherja Björgvins Páls hjá landsliðinu.


18 ára með sítt hár og töffarastæla
„Þegar ég mætti fyrst inn í landsliðið var ég átján ára með sítt hár og töffarastæla og taldi mig geta sigrað heiminn. Þegar EM hefst á næsta ári verð ég 41 árs gamall stuðningsmaður Viktors Gísla og tilbúinn að bakka hann upp þroskaðri og eldri. Allt annar maður. Það er ekki sjálfgefið að hafa fengið að upplifa allt það sem ég fékk tækifæri til á löngum landsliðsferli sem nær yfir meira en tvo áratugi og nærri 300 landsleiki,“ segir Björgvin Páll sem segir undanfarin 23 ár með landsliðinu hafa verið forréttindi.

Sér ekki fyrir endann
„Þótt ég sé kominn yfir fertugt þá sé ég ekki fyrir endann á handboltaferlinum. Líkaminn er enn þá ferskur og góður. Maður heldur góðu lífi í honum. Meðan maður fær fararleyfi hjá konunni og börnunum þá mætir maður glaður og hress til leiks,“ segir Björgvin Páll sem á fjögur börn með eiginkonu sinni Karen Einarsdóttur.
„Nú er það elsta orðið 12 ára og þau öll að verða meira sjálfbjarga sem auðveldar mér að taka þá ákvörðun að vera fara í burtu nær allan janúarmánuð. Svo hef ég gaman af þessu enn þá. Ég vona að það sjáist á mér inni á keppnisvellinum að ég hef enn þá ástríðu fyrir handboltanum, ekkert síður landsliðinu en Val,“ segir Björgvin Páll Gústavsson landsliðsmarkvörður í viðtali við handbolta.is.



