- Auglýsing -
Bjarni Ófeigur Valdimarsson og samherjar hans í IFK Skövde hefja úrslitakeppnina í Svíþjóð á mánudaginn er þeir taka á móti Hammarby í átta liða úrslitum. Vinna þarf þrjá leiki til þess að komast í undanúrslit.
Skövde náði öðru sæti úrvalsdeildarinnar í lokaumferðinni á miðvikudagskvöld með sigri á Guif í Eskilstuna. Á sama tíma tapaði Kristianstad fyrir deildarmeisturum Sävehof. Kristianstad var í öðru sæti fyrir síðustu umferðina.
Úrslitakeppnin hefst á laugardaginn með viðureign Sävehof og Lugi. Skövde og Hammarby mætast á mánudaginn. Daginn eftir tekur Ystads IF á móti Malmö og á miðvikdag leiða Kristianstad og Alingsås saman hesta sína.
Önnur viðureign Skövde og Hammarby verður í Stokkhólmi föstudaginn 1. apríl. Viku síðar rennur upp þriðji leikurinn í Skövde. Komi til oddaleiks í rimmu liðanna fer hann ekki fram fyrr en föstudaginn 22. apríl.
Undanúrslitin hefjast ekki fyrr en undir mánaðarmótin apríl/maí. Svíar eru þekktir fyrir að fara sér í engu óðslega þegar kemur að úrslitakeppninni.
- Auglýsing -