Nýkrýndir þýskir bikarmeistarar SC Magdeburg færðust aðeins nær takmarki sínu að verða þýskir meistarar í handknattleik karla í kvöld þegar þeir unnu Flensburg á útivelli, 32:29, í hörku skemmtilegum leik. Magdeburg, með þrjá íslenska landsliðsmenn innanborðs, komst með sigrinum í efsta sæti deildarinnar með 50 stig eftir 28 leiki, stigi ofar en Füchse Berlin sem trónað hefur í efsta sæti nær allt keppnistímabilið. Sex umferðir eru eftir af þýsku 1. deildinni.
Ómar markahæstur
Ómar Ingi Magnússon var markahæstur leikmanna Magdeburg í leiknum með níu mörk. Sjö þeirra skoraði hann frá vítalínunni. Janus Daði Smárason skoraði þrjú mörk og Gísli Þorgeir Kristjánsson tvö auk þriggja stoðsendinga.
Teitur Örn Einarsson skoraði tvisvar fyrir Flensburg og átti einnig tvær stoðsendingar. Danirnir Emil Jakobsen og Lasse Möller skoruðu sjö mörk hvor fyrir Flensburg og voru markahæstir.
Fyrsti sigurinn í 9 ár
Þetta var fyrsti sigur Magdeburg í Flensburg í níu ár og um leið fyrsta viðureignin sem Flensburg tapar á heimavelli í deildinni á keppnistímabilinu.
Sigur í fyrsta leik Arnórs Þórs
Arnór Þór Gunnarsson stýrði Bergischer HC til sigurs í fyrsta leiknum eftir að hann tók sem þjálfari liðsins í vikunni í samvinnu vð Markus Pütz. Bergischer HC vann slag tveggja neðstu liðanna í heimsókn til Balingen-Weilstetten, 25:21. Bergischer HC hafði tapað 12 leikjum í röð í deildinni fyrir viðureignina.
Oddur Gretarsson skoraði fjögur mörk fyrir Balingen, þar af þrjú úr vítaköstum. Daníel Þór Ingason skoraði ekki mark fyrir Balingen. Hann var hinsvegar svo óheppinn að fá rautt spjald á 40. mínútu og kom þar af leiðandi ekkert meira við sögu.
Þrátt fyrir tapið er staðan Bergischer HC erfið í næsta neðsta sæti. Áfram syrtir í álinn hjá Balingen-Weilstetten.
Staðan: