Arnar Freyr Arnarsson og liðsfélagar í MT Melsungen unnu í dag sinn fyrsta leik á keppnistímabilinu í þýsku 1. deildinni í handknattleik. Melsungen vann baráttusigur á Eisenach, 29:27, þegar leikið var í Werner-Assmann Halle í Eisenach eftir að hafa verið undir lengi vel leiksins.
Arnar skoraði tvö mörk af línunni auk þess að taka vel á í vörninni að vanda.
Margir úr leik
Sjö leikmenn Melsungen eru úr leik um þessar mundir vegna meiðsla og veikinda. Ekki síst í ljósi stöðunnar á hópnum er sigurinn mikilvægur og kærkominn. Eisenach var þremur mörkum yfir í hálfleik, 15:12.
Fyrsta tapið
Á sama tíma tapaði Gummersbach, undir stjórn Guðjóns Vals Sigurðssonar, í fyrsta sinn á leiktíðinni þegar liðið sótti Lemgo heim, 31:25. Lemgo náði athyglisverðum árangri á síðasta tímabili og virðist ætla að halda uppteknum hætti á nýbyrjuðu tímabili. Liðin sitja jöfn að stigum með fjögur hvort eftir þrjár umferðir.
Elliði Snær Viðarsson skoraði tvö mörk og var einu sinni vikið af leikvelli. Teitur Örn Einarsson skoraði eitt mark og var einnig einu sinni vísað af velli í tvær mínútur.
Áfram tapar Leipzig
Áfram gengur ekki sem skildi að safna stigim hjá Blæ Hinrikssyni og samherjum í Leipzig. Þeit töpuðu þriðja leiknum í röð í dag, að þessu sinni fyrir Wetzlar, 25:24, á heimavelli. Blær skoraði fjögur mörk, þrjú þeirra úr vítaköstum.
Leipzig liðið var lengi með yfirhöndina í leiknum en missti tökin á leiknum undir lokin og Wetzlar liðið fagnaði sínum fyrsta sigri á leiktíðinni undir stjórn Serbans Momir Ilic sem tók við þjálfun undir lok leiktíðar í vor.
Stöðuna í þýsku 1. deildinni og fleiri deildum evrópsks handknattleiks er að finna hér.