- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Fyrstu vikurnar hafa verið algjör snilld

- Auglýsing -


Í lok nóvember samdi Arnór Snær Óskarsson við norska meistaraliðið Kolstad til eins og hálfs árs. Um leið losnaði hann undan samningi við Rhein-Neckar Löwen í Þýskalandi hvar hann hafði verið í nærri hálft annað ár og fengið fá tækifæri, ekki síst í haust og í byrjun vetrar.

„Fyrstu vikurnar hafa verið algjör snilld. Ég hef komið mér vel fyrir með Benna, strákarnir í liðinu hafa tekið vel á móti mér og síðan urðum við bikarmeistarar á dögunum,“ sagði Arnór Snær í samtali við handbolta.is sem hitti Arnór Snæ þegar hann var að létta undir á æfingu landsliðsins í handknattleik í Víkinni.


Benni sem Arnór nefnir er bróðir hans, Benedikt Gunnar Óskarsson, sem gekk til liðs við Kolstad síðasta sumar. Bræðurnir er tveir af fjórum Íslendingum hjá Kolstad. Hinir eru Sigvaldi Björn Guðjónsson og Sveinn Jóhannsson.

Hef fengið að njóta mín

„Ég hef fengið að njóta mín bæði í vörn og sókn með Kolstad og er mjög ánægður. Tilgangurinn með skiptunum til Kolstad var fyrst og fremst sá að fá fleiri tækifæri til þess að spila. Auk þess þá erum við í Meistaradeildinnni og stefnum á þrennuna í Noregi í vor,“ segir Arnór Snær sem varð bikarmeistari í Kolstad á síðasta sunnudag. Stefnan er síðan tekin á að vinna deildarkeppnina og úrslitakeppnina í vor, líkt og Kolstad hefur gert tvö síðustu keppnistímabil.

Gleymdum að mæta til leiks

Úrslitaleikurinn við Elverum í bikarkeppninni á sunnudaginn varð æsilega spennandi í síðari hálfleik eftir talsverða yfirburði og fimm marka forskot þegar fyrri hálfleikur var á enda, 19:14.

„Við virtumst hafa gleymt að mæta til leiks í síðari hálfleik sem varð til þess að leikurinn varð jafn. Nokkrum mínútum fyrir leikslok vorum við tveimur mörkum undir. Útlitið var ekki gott en við erum með alvöru vinnera í liðinu sem sneru taflinu við,“ segir Arnór Snær ánægður með fyrsta titilinn í norsku bikarkeppninni eftir að hafa unnið nokkra titla með Val áður en farið var til Þýskalands. Kolstad vann viðureignina við Elverum, 28:27.

Lengra viðtal við Arnór Snæ er finna í myndskeiði ofarlega í þessari grein.


Sjá einnig: Arnór Snær hefur samið við norsku meistarana

Fimm Íslendingar norskir bikarmeistarar í tveimur leikjum

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -