- Auglýsing -
Þótt menn geri sér misháar vonir um að vinna heimsmeistaratitilinn í handknattleik þegar mætt er til leiks er fátítt að þeir hendi hvíta handklæðinu inn í hringinn löngu áður en keppni hefst. Það gerðu Suður-Kóreumenn að þessu sinni. Þeir senda ungmennalandslið sitt til keppni á HM í Egyptalandi. Enginn af þekktari og eldri leikmönnum liðsins er með í för. Elsti leikmaður Suður-Kóreu á HM 2021 er 22 ára en sá yngsti 17 ára.
Ástæða þessa að ungmennalið er sent til keppni mun vera sú að A-landslið Suður-Kóreu er að búa sig undir forkeppni Ólympíuleikanna sem fram fer í mars. Þar verður það í riðli með Frakklandi, Brasilíu og Chile. Tvær þjóðir tryggja sér farseðilinn á Ólympíuleikana sem eiga að fara fram í Japan í lok júlí og í byrjun ágúst.
Forsvarsmenn landsliðs Suður-Kóreu segja það ekki falla inn í undirbúning landsliðsins að taka þátt í HM að þessu sinni. Aðrir telja að ótti við að leikmenn smitist af kórónuveirunni ráði ákvörðuninni og að veikindi gætu gert út um vonir um árangur í Ólympíuumspilinu.
Suður-Kóreumenn hafa ekki verið í fremstu röð á undanförnum heimsmeistaramótum. Þeir fengu sérstakt keppnisleyfi, „wild card“, með blandað lið frá Suður- og Norður-Kóreu á HM 2019 og höfnuðu í 22. sæti af 24 þátttökuliðum.
- Auglýsing -