FH-ingurinn Garðar Ingi Sindrason hefur samið við þýska handknattleiksliðið Vfl Gummersbach sem Guðjón Valur Sigurðsson þjálfar. Frá þessu er greint á samfélagsmiðlum FH og Gummersbach í dag. Ekki kemur fram til hvers langs tíma samningur Garðars Inga við Gummersbach er.
Garðar Ingi, sem er 18 ára gamall, hefur staðið sig afar vel með FH á yfirstandandi tímabili og einnig í fyrra. Hann hefur skorað 77 mörk og gefið 86 stoðsendingar í fimmtán leikjum í Olísdeildinni.
Það má segja að Garðar hafi skotist fram á sjónarsviðið á síðasta tímabili þegar hann fékk stórt hlutverk með FH bæði í deildinni og riðlakeppni Evrópudeildarinnar þar sem FH mætti m.a. Gummersbach. Einnig hefur Garðar Ingi verið í stóru hlutverki hjá U18 og U19 ára landsliðum Íslands á EM og HM tvö undangengin sumur.
Garðar Ingi hefur þrisvar verið valinn í lið umferðarinnar hjá Handboltahöllinni á leiktíðinni og tvisvar valinn leikmaður umferðarinnar.




