„Ég er ekkert smá spennt,“ segir Katrín Anna Ásmundsdóttir leikmaður Gróttu og annar tveggja nýliða í íslenska landsliðinu í handknattleik kvenna sem fer til Tékklands í fyrramálið til þátttöku í fjögurra liða æfingamóti í Cheb í Tékklandi. Katrín Anna sér nú fram á að taka þátt í sínum fyrstu A-landsleikjum í Tékklandi en hún er þrautreynd eftir þátttöku með yngri landsliðunum í stórmótum undanfarin sumur.
„Eftir að hafa verið með á æfingum fyrir síðasta verkefni A-landsliðsins í vor þá var ég nokkuð vongóð um að fá að vera með aftur. Engu að síður kom það mér pínu á óvart þegar ég fékk símtal frá þjálfaranum þar sem ég var stödd í skólanum og hann tilkynnti mér að ég væri valin í A-landsliðið,“ segir Katrín Anna sem var svo útslegin við fréttirnar að hún gat ekki einbeitt sér að náminu það sem eftir var dagsins.
„Það var bara ekki séns. Ég sagði vinkonu minni strax frá þessu. Hún hélt áfram að læra en ég gat ekki skrifað einn staf það sem eftir var skóladagsins,“ segir Katrín Anna sem hefur upplifað margt nýtt í tengslum æfingarnar síðustu dagana sem hún segir nánar frá í viðtalinu.
Lengra viðtal er við Katrínu Önnu efst í þessari grein.
Tveir mánuðir eru þangað til A-landslið kvenna hefur keppni á Evrópumótinu í Austurríki.
A-landslið kvenna – fréttasíða.