Þorsteinn Gauti Hjálmarsson, leikmaður Fram, lék tvo fyrstu leiki sína fyrir finnska landsliðið í dag og í gær þegar Finnar tóku þátt í Baltic cup, fjögurra liða móti í Riga í Lettlandi. Finnska landsliðið vann landslið Litáen í úrslitaleik mótsins sem lauk rétt fyrir hádegið, 31:29. Gauti skoraði eitt mark í leiknum í morgun og átti annað skot sem geigaði.
Þorsteinn Gauti skoraði einnig eitt mark þegar finnska landsliðið vann landslið Litáen, 27:26, í gær. Meðal leikmanna landsliðs Litáen í mótinu eru Matas Pranskevičius markvörður Hauka og Gytis Šmantauskas sem lék með FH á síðasta keppnistímabili. Savukynas Gintaras er landsliðsþjálfari Litáen.
Eins og kom fram á handbolta.is í byrjun desember þá er Gauti af finnsku bergi brotinn og hefur tvöfalt ríkisfang. Hann er þar af leiðandi gjaldgengur með finnska landsliðinu sem Svíinn Ola Lindgren stýrir um þessar mundir.
Gauta gafst ekki langur tími til þess að æfa með nýjum samherjum fyrir mótið þar sem hann kom til móts við þá á föstudaginn í Helsinki. Fljótlega var farið yfir til Riga til þátttöku á mótinu.
Næstu leikir finnska landsliðsins verða í undankeppni EM í vor.
Harðarmenn voru í eldlínunni
Endijs Kušners leikmaður Harðar skoraði fimm mörk fyrir Letta þegar þeir töpuðu fyrir Eistlendingum, 35:26, í gær. Samherji hans Kušners hjá Herði, Roland Lebedevs markvörður, tók ekki þátt í leiknum.
Lettar töpuðu síðan í morgun fyrir Litáum í viðureign um þriðja sæti mótsins, 24:15. Kušners skoraði þrjú mörk og Lebedevs stóð vaktina í marki Letta.