„Það er gríðarleg tilhlökkun innan hópsins og á meðal fólks á Akureyri fyrir þessum leikjum sem eru þeir fyrstu hjá KA/Þór á heimavelli í Evrópukeppni,“ sagði Andri Snær Stefánsson, þjálfari KA/Þórs í samtali við handbolta.is vegna leikjanna tveggja við HC Gjorche Petrov frá Norður Makedóníu í 1. umferð Evrópubikarkeppninnar í handknattleik kvenna. Fyrri viðureignin hefst klukkan 19.30 í kvöld í KA-heimilinu og sú síðari verður á sama stað og tíma annað kvöld, laugardag.
„Það er geggjað að fá að spila Evrópuleiki í KA-heimilinu, ekki síst af því að við lékum alla fjóra Evrópuleikina í fyrra á útivelli. Við höfum fulla trú á að okkar fólk mæti á leikina og taki þátt í skapa mjög góða stemningu í kringum leikina,“ sagði Andri Snær sem hefur undanfarna daga kynnt sér lið HC Gjorche Petrov eftir föngum.
Leikir KA og HC Gjorche Petrov fara fram í KA-heimilinu í kvöld, föstudag, og annað kvöld. Báðir leikir verða flautaðir til leiks klukkan 19.30. Stakur aðgöngumiði fyrir eldri en 16 ára er 3.000 kr en hægt er að kaupa miða á báða leiki fyrir 5.000 kr. 16 ára yngri greiða 500 kr í aðgangseyri en 6 ára og yngri greiða ekki fyrir aðgang.
Vilja draga úr hraðanum
„Lið HC Gjorche Petrov er skipað hávöxnum leikmönnum og líkamlega sterkum. Svo virðist hinsvegar samkvæmt þeim myndum sem ég hef séð að leikur þess sé ekki mjög hraður. Aðalllega leikur liðið 5/1 vörn og virðist eftir megni reyna að draga úr hraða leiksins. Þetta er öflugt lið sem leikur aðeins öðruvísi handknattleik en við eigum að venjast,“ sagði Andri Snær ennfremur.
Öðruvísi andstæðingur
„Það er jákvætt og skemmtilegt við Evrópukeppnina að takast á við öðruvísi andstæðinga en við eigum að venjast daglega hér heima þar sem við erum að alltaf að fást við sömu liðin. Það er hollt að máta sig við aðeins öðruvísi andstæðing,“ sagði Andri Snær.
HC Gjorche Petrov er frá Skopje, höfuðborg Norður Makedóníu. Liðið er efst í B-riðli efstu deildar kvenna. Deildinni er skipt í tvo riðla með átta liðum í A-riðli og sjö í B-riðli. HC Gjorche Petrov hefur unnið þrjá fyrstu leiki sína og með nokkrum yfirburðum, markatalan er 114:48. Allir leikmenn liðsins eru frá Norður Makedóníu samkvæmt lista Handknattleikssambands Evrópu, EHF. Af 20 leikmönnum eru þrír fæddir fyrir aldamót.
Möguleikarnir eru í hraðanum
Andri Snær segir að möguleikar KA/Þórsliðsins liggi í að leika sterkan varnarleik og keyra á hraðaupphlaup og leika einnig hraðan sóknarleik.
„Við verðum heldur betur að bæta okkar sóknarleik frá viðureigninni við Stjörnuna á miðvikudagskvöldið þar sem við áttum svo sannarlega slæman dag. Takturinn verður að batna svo við fáum þau færi sem við viljum fá,“ sagði Andri.
„Við erum með ungt og spennandi lið með marga leikmenn sem eru að stíga sín fyrstu skref í meistaraflokki. Það er mikilvægt fyrir þá að kynnast Evrópukeppninni. Þetta eru bónusleikir fyrir okkur og meðal annars til þess fallnir að auka á metnaðinn og hvetjandi fyrir starfið í handboltanum á Akureyri,“ sagði Andri Snær Stefánsson þjálfari KA/Þórs í samtali við handbolta.is.