- Auglýsing -
„Þetta voru geggjaðir leikir fyrir áhorfendur enda áttu í hlut tvö frábær lið,“ sagði hinn þrautreyndi leikmaður Hauka, Stefán Rafn Sigurmannsson, í samtali við handbolta.is eftir að Haukar tryggðu sér sæti í undanúrslitum um Íslandsmeistaratitilinn í handknattleik í kvöld með eins marks sigri á KA, 31:30, í oddaleik á Ásvöllum í Hafnarfirði.
Haukar fóru illa að ráði sínu þegar þeir voru komnir fjórum mörkum yfir, 29:25, þegar átta mínútur voru til leiksloka. Í stað þess að tryggja sér öruggan sigur þá hleyptu þeir KA-mönnum inn í leikinn á nýjan leik. Stefán Rafn sagði það hafa loðað við Haukaliðið upp á síðkastið að missa niður gott forskot. „Þetta er eitthvað sem við verðum að skoða áður en að rimmunni við ÍBV kemur og verður lagað á næstu æfingum. Ég held að vandinn sé að við slökum aðeins of mikið á,“ sagði Stefán Rafn sem hældi KA-mönnum á hvert reipi.
„Það er frábært að sjá uppbygginguna sem átt hefur sér stað hjá KA undanfarin þrjú ár með kóngana þrjá á bekknum, Jónatan Þór Magnússon, Heimi Örn Árnason og Sverre Jakobsson. Allt miklir reynslumenn sem geta komið miklu áleiðis inn í þetta góða lið sem byggt hefur verið upp. Það er að sýna sig. KA er komið í hóp allra bestu liða,“ sagði Stefán Rafn Sigurmannsson, leikmaður Hauka.
- Auglýsing -