Óðinn Þór Ríkharðsson skoraði tvö mörk í kvöld þegar lið hans Holstebro vann Ribe-Esbjerg, 30:24, á heimavelli í dönsku úrvalsdeildinni í handknattleik. Með sigrinum komst Holstebro upp í þriðja sæti deildarinnar með 16 stig og er fjórum og fimm stigum á eftir efstu liðunum tveimur, Aalborg Håndbold og GOG.
Rúnar Kárason skoraði átta mörk og var markahæstur hjá Ribe-Esbjerg sem tókst ekki að fylgja eftir stórsigri á Skjern á dögunum. Gunnar Steinn Jónsson skoraði tvö mörk en Daníel Þór Ingason skoraði ekki mark en var að vanda í vörn liðsins. Holstebro var marki yfir í hálfleik, 16:15.
Annar tapleikur Skjern
Elvar Örn Jónsson og félagar töpuðu öðrum leiknum í röð. Að þessu sinni á heimavelli þegar SönderjyskE, lið Sveins Jóhannssonar, kom í heimsókn. Lokatölur 26:22 og þar með komst SönderjyskE upp í sjötta sæti deildarinnar með 13 stig. Skjern er hinsvegar fallið niður í áttunda sæti. SönderjyskE var tveimur mörkum yfir að loknum fyrri hálfleik, 13:11.
Sveinn með á ný
Sveinn kom inn í lið SönderjyskE í kvöld eftir að hafa verið fjarri góðu gamni í síðasta leik liðsins vegna meiðsla. Hann skoraði ekki að þessu sinni og átti bara eitt markskot. Hann var hinsvegar traustur í vörninni að vanda.
Elvar Örn skoraði þrisvar sinnum fyrir Skjern.
Úrslit kvöldsins:
Holstebro – Ribe Esbjerg 30:24
Århus – Skanderborg 28:21
Ringsted – Mors 30:27
Skjern – SönderjyskE 22:26
Staðan:
Aalborg 21(12), GOG 20(11), Holstebro 16(12), Bjerringbro/Silkeborg 16(12), Skanderborg 13(13), SönderjyskE 13(13), Mors 13(13), Skjern 13(12), Århus 12(13), Fredericia 12(12), Kolding 11(12), Ribe-Esbjerg 7(13), Ringsted 3(12), Lemvig 2(12).