- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Gerð voru mannleg mistök

Dómaramistök komu í veg fyrir sænska sigur í undanúrslitaleik EM í gær. Mynd/EPA
- Auglýsing -

Michael Wiederer, forseti Handknattleikssambands Evrópu, dró ekki fjöður yfir það á blaðamannafundi í Lanxess Arena í Köln í dag að dómarar leiks Frakklands og Svíþjóðar í undanúrslitum Evrópumóts karla hafi gert mistök þegar þeir dæmdu jöfnunarmark Frakkans Elohim Prandi gilt.

Þess má geta að sömu dómararnir dæmdu leik Frakklands og Svíþjóðar í gær og leik Þýskalands og Íslands, Slave Nikolov og Gjorgji Nachevski frá Norður Makedóníu. Þeir litu framhjá sóknarbrotum Þjóðverja á síðustu sekúndum.

„Það voru gerð mannleg mistök. Þeir áttu að skoða upptöku til að vera vissir,“ sagði Wiederer á blaðamannafundi í Lanxess Arena í Köln í dag.

Fleiri axarsköft

Forsetinn nefndi tvö önnur dæmi um ranga dóma í leikjum EM að þessu sinni. Annað þeirra var þegar mark í einum leikja keppninnar sem dæmt var ógilt en reyndist vera gott og gilt. Hitt sem Wiederer nefndi var axarskaft dómara leiks Svíþjóðar og Danmerkur í millriðlakeppninnar þegar þeir ákváðu að færa leikklukkuna aftir um nærri 15 sekúndur undir lok viðureignarinnar. Áður hefur EHF viðurkennt að dómarar hafi þá gert mistök.

Slave Nikolov og Gjorgji Nachevski dómarar gerðu hvert axarskaftið á fætur öðru á EM. Þeir dæmdu leik Íslands og Þýskalands og einnig viðureign Frakklands og Svíþjóðar í gærkvöld. Mynd/Hafliði Breiðfjörð

Nefndi ekki leik Íslands og Þýskalands

Wiederer, sem er sjálfur fyrrverandi dómari, nefndi ekki síðustu sókn Þýskalands í leiknum við íslenska landsliðið þar sem fleiri en eitt sóknarbrot fór framhjá dómurunum áður en Þjóðverjar innsigluðu sigurinn, 26:24, á síðustu sekúndunum.

Wiederer sagði ennfremur að mikið væri lagt í þjálfun dómara auk ýmiskonar aðstoðar við þá fyrir og á meðan mótinu stendur. Einnig væri unnið að því að bæta tæknibúnað sem þeir mættu nota til þess að fækka mistökum.

Gagnrýni á rétt á sér

„Gagnrýni vegna atviksins í gær á fyllilega rétt á sér. Hinsvegar er það svo að íþróttin er alltaf að verða hraðari og leikmenn tæknilega betri sem gerir íþróttina erfiðari að dæma. Allir gera mistök, leikmenn, þjálfara, dómarar, eftirlitsmenn og við sem skipuleggjum og höldum utan um mótahaldið. Hjá mistökum verður aldrei komist en við gerum okkar besta til þess að fækka þeim,“ sagði Wiederer sem bætti við hann hefði fullan skilning á gremju Svía vegna marksins sem dæmt var gilt í gær.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -