„Við gerum meiri væntingar til okkar á þessu móti en á HM í fyrra að sama skapi erum við í mjög sterkum riðli með meðal annars Hollendingum og Þjóðverjum,“ segir landsliðskonan Díana Dögg Magnúsdóttir í samtali við handbolta.is í Innsbruck en hún er að taka þátt í öðru stórmóti í röð með landsliðinu. Fyrsti leikur íslenska landsliðsins verður í dag gegn Hollendingum. Viðureignin hefst klukkan 17 í Ólympíuhöllinni í Innsbruck.
Hollendingar höfnuðu í 5. sæti í handknattleikskeppni Ólympíuleikanna í Frakklandi í sumar.
Skemmtilegt að mæta sterkari liðum
„Mér finnst það vera mjög skemmtilegt verkefni að mæta nokkrum af sterkustu liðunum í stað þeirra sem eru nær okkur. Það hjálpar okkur til þess að taka framfaraskref og ná lengra að leika við allra bestu liðin. Við verðum draga úr mistökum gegn sterkari þjóðunum því þær refsa mjög grimmilega fyrir hver mistök sem gerð eru,“ segir Díana Dögg sem tekur undir með blaðamanni að landsliðið verði að halda áfram á þeirri braut sem það var á í leikjunum við Pólverja heima í lok okótber.
Erum á réttri leið
„Við höfum tekið framförum að undanförnu þótt sannarlega hefðum við viljað gera ennþá betur á móti Sviss í æfingaleikjunum áður en komið var til Innsbruck. Ég hlakka mikið til að byrja að keppa á EM,“ segir Díana Dögg Magnúsdóttir landsliðskona í handknattleik og leikmaður HSG Blomberg-Lippe.
Díana Dögg, sem leikur sinn 59. landsleik í dag, þekkir vel í þýska handboltanum eftir að hafa leikið þar síðan 2020. Díana Dögg segir pressuna vera talsverða einnig á þýska landsliðinu sem verður síðasti andstæðingur Íslands í riðlakeppninni á þriðjudaginn.
Viðtalið við Díönu Dögg er í heild sinni er að finna ofar í þessari grein.
A-landslið kvenna – fréttasíða.
Leikir Íslands í F-riðli EM kvenna 2024:
29. nóvember: Ísland - Holland, kl. 17.
1. desember: Ísland - Úkraína, kl. 19.30.
3. desember: Ísland - Þýskaland, kl. 19.30.
Sjá einnig: EM kvenna ”24 – leikjadagskrá, riðlakeppni
Landslið Íslands á EM kvenna 2024