- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Get varla beðið eftir að byrja

Elín Jóna Þorsteinsdóttir markvörður íslenska landsliðsins og danska liðsins EH Aalborg. Mynd/Hafliði Breiðfjörð
- Auglýsing -

„Eftirvæntingin er mikil. Ég var öll á iði þegar við lentum hér í Stafangri í gær og get varla beðið eftir að byrja,“ sagði Elín Jóna Þorsteinsdóttir annar markvörður íslenska landsliðsins þegar handbolti.is hitti hana að máli á hóteli íslenska landsliðsins í Stafangri í dag, sólarhring áður en flautað verður til fyrsta leiks íslenska landsliðsins á heimsmeistaramótinu í handknattleik í DNB-Arena.


Elín Jóna er eins og 16 af 18 leikmönnum íslenska landsliðsins að taka þátt í stórmóti landsliða í fyrsta skiptið. Elín Jóna segir að undanfarin vika sem er að baki hvar landsliðshópurinn hefur verið í Noregi við æfingar og keppni hafa nýst afar vel.

Æfingaleikirnir nýttust vel

„Mér finnst við hafa náð að leika okkur vel saman, jafnt í vörn sem sókn. Æfingaleikirnir þrír nýttust mjög vel. Þótt þeir hafi allir tapast þá höfum við dregið af þeim góðan lærdóm sem við tökum með okkur inn í mótið,“ sagði kennaraneminn Elína Jóna sem lætur sér ekki nægja að æfa og keppa í handknattleik heldur leggur hún stund kennaranám í Álaborg þar sem hún býr.

Vonandi getum við strítt Slóvenum og Frökkum
í fyrstu tveimur viðureignunum.

Mikil samstaða

„Mér finnst andinn vera góður í hópnum. Allir geta skipst á skoðunum og notið þess að vera saman. Samstaðan er til fyrirmyndar.“

Íslenska landsliðið er talið með veikari liðum mótsins. Það fékk boð um þátttöku og var í fjórða styrkleikaflokki af fjórum þegar dregið var í riðla. Elín Jóna lætur allar vangaveltur sem vind um eyru þjóta. Spurð með hvaða væntingar hún hafi til mótsins segir hún málið vera einfalt í sínum huga.

Þurfum góðan leik

„Við lítum fyrst og fremst til okkar. Markmiðið er fyrst og síðast að taka framförum í okkar leik, hvort heldur er í vörn eða sókn. Vonandi getum við strítt Slóvenum og Frökkum í fyrstu tveimur viðureignunum. Svo stefnum við á að vinna Angóla í síðustu umferð riðlakeppninnar. Með mjög góðum leik eigum við að geta gert það,“ sagði Elín Jóna og bætir við.

„Fyrirfram erum við litla liðið í riðlunum. Það er ekkert endilega slæmt við það. Þá eru kannski möguleikar á að koma inn og geta strítt stærri liðunum. Það getur allt gerst í handbolta. Leikurinn er jafn í upphafi. Hvað gerist eftir það getur enginn slegið föstu um. Kannski vinnum við Slóvena á morgun. Hver veit hvað gerist,“ sagði Elín Jóna Þorsteinsdóttir markvörður sem leikur sinn 49. landsleik á morgun.

Hverjar eru konurnar 18 í fyrsta HM-hópnum í 12 ár?

Leikir Íslands á HM:
30. nóvember: Slóvenía - Ísland, kl. 17.
2. desember: Ísland - Frakkland, kl. 17.
4. desember: Angóla - Ísland, kl. 17.
- Leikið verður í Stavanger Idrettshall (DNB-Arena) sem rúmar 4.100 áhorfendur í sæti.
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -