- Auglýsing -
- Auglýsing -

Get varla beðið eftir leiknum

Ýmir Örn í Gíslason í marktækifæri í leiknum við Austurríki í Bregenz á miðvikudaginn. Mynd/Hafliði Breiðfjörð
- Auglýsing -

„Það verður sturlað að fá loksins tækifæri til þess að leika heimaleik fyrir framan fullt hús af áhorfendum. Ég er ótrúlega spenntur,“ sagði Ýmir Örn Gíslason landsliðsmaður í handknattleik karla í samtali við handbolta.is vegna síðari viðureignarinnar við Austurríki í umspili um HM sæti sem fram fer á Ásvöllum klukkan 16 í dag. Uppselt var á leikinn fyrir sex dögum. Talið er að hátt í 2.000 áhorfendur verði viðstaddir. Ísland er með fjögurra marka forskot eftir fyrri viðureignina sem lauk, 34:30, í Bregenz á miðvikudaginn.

Gott austurrískt lið

„Við mætum góðu austurrísku landsliði sem gerir sitt mjög vel. Þar af leiðandi verðum við að mæta klárir í slaginn frá upphafi. Eftir að hafa farið vel yfir fyrri leikinn sem fram fór á miðvikudaginn teljum við okkur eiga geta gert eitt og annað betur, jafnt í vörn sem sókn. Okkur vantar líka betra samspil á milli varnar og sóknar. Nokkur atriði sem við vitum af en verðum að ná fram,“ sagði Ýmir Örn sem verður að vanda burðarás í íslensku vörninni enda kominn í hóp allra fremstu varnarmanna í Evrópu.


„Ég get varla beðið eftir leiknum,“ sagði Ýmir Örn spenntur og tók undir með blaðamanni að það væri slæmt að ekki væri til stærri nothæf keppnishöll þegar svo mikill áhugi væri fyrir landsliðinu og raun ber vitni um.

Viljum fá alvöru keppnishöll

„Við viljum fá alvöru höll sem fyrst, keppnishöll sem nýtist öllum og getur tekið á móti mikið fleiri áhorfendum því áhuginn er mikill um þessar mundir eins aðsóknin í miðana á þennan leik undirstrikar. Maður bara vonar innilega að eitthvað fari loksins að gerast í þeim málum. Það er ekki hægt að bíða mikið lengur,“ sagði Ýmir Örn Gíslason landsliðsmaður í handknattleik í samtali við handbolta.is.

Viðureign Íslands og Austurríkis hefst klukkan 16 í dag og verður í beinni útsendingu RÚV. Einnig verður textalýsing á handbolti.is.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -