- Auglýsing -
- Handboltinn er kominn á beinu brautin aftur erfiða mánuði. Það er alltént sú tilfinning sem ég fékk eftir að hafa farið til Vestmannaeyja og Akureyrar til að fylgjast með kappleikjum og hitta fólk síðustu daga.
- Undanúrslitaleikir deildarmeistara KA/Þórs og ÍBVí Olísdeild kvenna voru merki um að lífið í kringum handknattleikinn er að færast í eðlilegt horf á ný. Stórskemmtilegir leikir, ekta úrslitaleikir með eftirvæntingu, dramatík og spennu til viðbótar við frábæra stuðningsmenn. Þeir lögðu sig fram og nutu þess að mega aftur sleppa aðeins fram af sér beislinu.
- Bæði lið eiga þakkir skildar fyrir frábæra undanúrslitarimmu þar sem allt var lagt í sölurnar. Þegar upp er staðið þá stóð önnur fylkingin uppi sem sigurvegari. Hjá því verður aldrei komist eins súrt og það getur verið að bíta í blessað eplið.
- Með fullri virðingu fyrir stuðningsmönnum KA/Þórs þá er ekki annað hægt er að hrífast með stemningunni í kringum ÍBV-liðið. Frábærlega var staðið á heimaleiknum í einvíginu á miðvikudaginn. Umgjörðin var pínulítið “erlendis” og verður óvíða betri hér landi. „Ég vildi óska þess að þetta einvígi væri endalaust,“ sagði einn við mig eftir leikinn í Eyjum þegar leikurinn var um garð genginn. Svo gaman þótti honum að vera þátttakandi þrátt fyrir tap.
- Til viðbótar fylgdu tugir Eyjamanna liðinu norður á báða undanúrslitaleikina. Nokkuð sem fylgjendur annarra liða mega taka sér til fyrirmyndar. Ekki var aðeins sómi að fylgja liðinu heldur hvernig það var gert á vettvangi, þ.e. með gleðina í öndvegi.
- Er ekki hægt að fá Eyjamenn til þess að koma líka á næstu leiki, velti einn Akureyringur fyrir sér í léttum tón við mig eftir leikinn í KA-heimilinu á laugardaginn. Svo gaman hafði hann af heimsókn hópsins og þeim sterka og jákvæð svip sem hann setti á leikina.
- Margir geta lært af Eyjamönnum í þessu efnum. Þeir hafa gefið tóninn og það ekki fyrsta skipti og það er eitthvað í þessum tón sem fær mann til að hrífast með.
Ívar Benediktsson, [email protected]
- Auglýsing -