Mikil umræða á sér stað innan þýska handknattleiksins um heimsmeistaramótið í handknattleik karla sem fram á að fara í Egyptalandi í janúar. Skiptar skoðanir eru á meðal manna um hvort mótið eigi að fara fram eða ekki. Eins hvort þýsk félagslið muni setja leikmönnum sínum stólinn fyrir dyrnar þegar kemur að þátttöku þeirra í mótinu með landsliðum sínum.
Umræðan þyngist
Kórónuveiran hefur farið sem eldur í sínu um Þýskaland upp á síðkastið. Eftir að nokkrir leikmenn þýska landsliðsins greindust smitaðir eftir þátttöku í tveimur landsleikjum í byrjun nóvember, þrátt fyrir mjög strangar sóttvarnir og líf í svokallaðri „búbblu“, hefur þunginn í umræðunni um HM aukist. Mörgum leikjum hefur verið frestað í tveimur efstu deildum í karlaflokki og ljóst að leikjadagskráin er komin talsvert úr skorðum. Og það sem verra er, svigrúmið fyrir frestun leikja var þegar lítið fyrir.
Svara þarf erfiðum spurningum
Frank Bohmann, framkvæmdastjóri þýsku deildarkeppninnar, sagði í samtali við þýska fjölmiðla í gær að menn verði að setjast yfir dagkskrána og um leið velta fyrir sér hvað eigi að gera varðandi HM. Hann segist hafa skilning á að Alþjóða handknattleikssambandið haldi því til streitu að mótið fari fram og það á tilsettum tíma. Hinsvegar verði menn einnig að svara ýmsum spurningum eins og til dæmis hvaða afleiðingar það hefði ef félög neituðu að gefa leikmönnum sínum leyfi til að taka þátt í HM. Eins hvort hægt sé að fresta HM eða hætta við það og hvaða afleiðingar það hefði fyrir handknattleik í heiminum, á Alþjóða handknattleikssambandið og mótshaldara í Egyptlandi.
Bohmann segir að vandlega verði farið yfir þessi atriði á næstu dögum í samvinnu við þýska handknattleikssambandið. Hugsa verði um hagsmuni leikmanna en einnig félaganna og deildarkeppninnar enda stefnir jafnvel í að ekki veiti af því að leika í janúar verði framhald á að meirihluta leikja í hverri umferð sé slegið á frest.