- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Getum byggt ofan á þennan leik

Arnar Pétursson, landsliðsþjálfari, fagnar sigrinum í gær. Mynd/Mummi Lú
- Auglýsing -

„Stelpurnar voru mjög flottar í dag. Einhverjar hefðu komið litlar í sér í næsta leik eftir tapið fyrir Svíum en þær gerðu það ekki heldur léku frábærlega,“ sagði Arnar Pétursson, landsliðsþjálfari kvenna eftir frábæran sigur á Serbum, 23:21, í undankeppni Evrópumótsins á Ásvöllum í Hafnarfirði í gær.

Íslenska liðið lék afar vel og hélt Serbum lengst af niðri með stórbrotnum varnarleik og magnaðri frammistöðu Elínar Jónu Þorsteinsdóttur í markinu. Sóknarleikurinn var þolinmóður þar sem margir lögðu sitt lóð á vogarskálina, þar á meðal Ragnheiður Júlíusdóttir sem skoraði sjö mörk með þrumufleygum.

Ragnheiður Júlíusdóttir átti frábæran leik og skoraði sjö mörk. Mynd/Mummi Lú


Hefði verið auðvelt að brotna

„Karakterinn í hópnum kom best í ljós í síðari hálfleik þegar Serbar komust einu sinni yfir, 15:14, eftir að hafa skorað sex mörk í röð gegn einu frá okkur. Þá hefði verið auðvelt að brotna en stelpurnar gerðu það ekki heldur unnu sig inn í leikinn aftur jafnt og þétt.


Ég er mjög ánægður með margt í okkar leik gegn mjög sterku liði Serba,“ sagði Arnar sem skiljanlega var í sjöunda himni með sigurinn og frammistöðu íslenska landsliðsins að þessu sinni enda um að ræða fyrsta sigur íslensks kvennalandsliðsins á serbnesku landsliði í mótsleik. Með sigrinum opnast raunhæfur möguleiki fyrir íslenska liðið um að vera í baráttu um annað sæti 6. riðils undankeppninni sem veitir keppnisrétt á lokamóti EM 2022 í nóvember á næsta ári.

Sýnir að allt er hægt

„Sigurinn sýnir vissulega að það er allt hægt í handbolta. Hinsvegar megum við ekki gleyma því að við erum að hefja ákveðna vegferð. Sigurinn hjálpar okkur mikið við þá vinnu sem framundan er. Ofan á hann eigum við að geta byggt. Það er gott að geta farið með fullt af hlutum inn í næstu verkefni,“ sagði Arnar Pétursson, landsliðsþjálfari kvenna í handknattleik.

Mót í nóvember og EM-leikir í mars

Kvennalandsliðið kemur næst saman til æfinga eftir miðjan nóvember og tekur þátt í æfingamóti í Tékklandi. Næstu leikir í undankeppni EM verða 2. og 6. mars gegn Tyrklandi. Tveir síðustu leikirnir í keppninni, heima á móti Svíum og á útivelli gegn Serbum, verða 20. og 23. apríl.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -