- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Getum orðið mun beinskeyttari

Viggó Kristjánsson sækir að Eliasi Ellefsen á Skipagøtu og Pætri Mikkjalsson í leiknum í gær. Mynd/Hafliði Breiðfjörð
- Auglýsing -

„Það eru nokkrar breytingar á leikkerfunum hjá Snorra frá þeim sem við höfum verið að leika. Einnig er stefnan að leika hraðar en áður. Til viðbótar eru breytingar á vörninni. Allt er þetta eðlilegt, með nýjum þjálfara koma aðrar áherslur og breytingar. Það er okkar leikmannanna að gera það sem best,“ sagði Viggó Kristjánsson landsliðsmaður í handknattleik og leikmaður þýska liðsins Leipzig sem tók þátt í síðari vináttuleiknum við Færeyinga í Laugardalshöll í gær.


Viggó tók undir með öðrum að fyrri viðureignin hafi verið betur heppnuð hjá íslenska liðinu fremur en sú síðari. Ekki má heldur gleyma því að færeyska liðið var mun skarpara í gær en á föstudagskvöld. Viggó segir margt gott hafa gerst í vinnu landsliðsins á undanförnum dögum.

Landsliðið var saman frá því á mánudagsmorgun. Flestir leikmenn hverfa til sinna félagsliða ytra í dag. Næst kemur landsliðið saman á milli jóla og nýárs til að hefja hinn eiginlega undirbúning fyrir EM sem hefst í Þýskalandi rétt fyrir miðjan janúar.

Viggó hefur snúið á Peter Krogh er þess albúinn að koma boltanum framhjá Nicholas Satchwell markverður færeyska landsliðsins. Mynd/Hafliði Breiðfjörð

Allir vildu sanna sig

„Allir vildu sanna sig í æfingunum og í leikjunum og leggja áherslu á að gera það vel sem Snorri þjálfari er að koma með inn í hópinn. Við þurfum að fara betur yfir eitt og annað. Ég er viss um að við getum orðið mun beinskeyttari í harðaupphlaupum og seinni bylgjunni. Með aukinni samæfingu veit ég að okkur tekst að fækka tæknifeilum þannig að við verðum ennþá beittari,“ sagði Viggó í samtali við handbolta.is eftir viðureignina í Laugardalshöll í gær.

Lengja sóknirnar

„Eitt af markmiðum okkar er að lengja sóknirnar, leika og okkur lengra inn í kerfin, sem er jákvætt, í stað þess að slútta fljótlega. Með því að spila lengur fáum við betri færi. Í grunninn var það eitt af áhersluatriðum vikunnar,“ sagði Viggó sem sleit liðband í fingri fyrir skömmu. Til stóð að hann tæki ekki þátt í leikjunum en eftir að hafa fengið spelku til að verja fingurinn ákvað hann að láta slag standa í gær.

Slitið liðband í fingri

„Það var gott að koma heim og hitta Snorra og félagana í landsliðinu. Einnig að hitta sjúkraþjálfarana og fá hjá þeim spelkuna sem mun hjálpa mér á næstu vikum. Fingurinn þarf sinn tíma til að jafna sig. Þetta er ekkert alvarlegt,“ sagði Viggó Kristjánsson landsliðsmaður í handknattleik í samtali við handbolta.is í gær.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -