„Það sýnir hversu sterkt lið við erum að fara í framlengingu gegn Evrópumeisturunum og tapa með tveggja eða þriggja marka mun eftir framlengingu. Við hefðum getað unnið leikinn. Úrslitin réðust á tveimur skotum framhjá og tveimur vörðum skotum,” sagði Ethel Gyða Bjarnasen annar markvarða U20 ára landsliðsins í samtali við handbolta.is í kvöld eftir naumt tap landsliðsins fyrir Evrópumeisturum Ungverja í átta liða úrslitum heimsmeistaramótsins í handknattleik í Skopje í Norður Makedóníu, 34:31. Jafnt var, 29:29, eftir hefðbundinn 60 mínútna leik.
„Ég er fúl yfir að við unnum ekki leikinn en þegar öllu er á botninn hvolft þá finnst mér við geta verið mjög stoltar af okkur,“ sagði Ethel Gyða.
„Það sýnir gríðarlega sterkan karakter hjá liðinu að koma til baka eftir að hafa verið sjö mörkum undir í hálfleik. Til viðbótar þá misstum við Tinnu út meidda snemma í leiknum og Elísa fór á slysó með höfuðáverka. Aðrir leikmenn stigu upp og sýndu úr hverju við erum gerðar,“ sagði Ethel Gyða ennfremur en hún varði mjög vel í síðari hálfleik í leiknum í kvöld þegar íslenska landsliðið vann niður sjö marka forskot Ungverja.
Ætlum að vinna þetta fokking fimmta sæt
Framundan er leikur við Svía á morgun um réttinn til þess að leika um fimmta sætið á HM á sunnudaginn. Ethel Gyða var ekkert að orðlengja það þegar hún var spurð um næsta markmið landsliðsins. „Við ætlum að vinna þetta fokking fimmta sæti.“
Nánar er rætt við Ethel Gyðu í myndskeiðsviðtali efst í þessari grein.
Næsti leikur íslenska landsliðsins verður á morgun við Svíþjóð í krossspili um sæti fimm til átta. Leikurinn hefst klukkan 16 og verður handbolti.is að vanda með gætur á leiknum.
HMU20: Dagskrá og úrslit síðustu leikdagana