- Auglýsing -
- Auglýsing -

Getur orðið skemmtilegur riðill

Ólafur Andrés Guðmundsson leikur í Frakklandi. Mynd/Ívar
- Auglýsing -

„Það verður gaman að mæta Ungverjum á heimavelli fyrir framan fulla höll af áhorfendum. Ég reikna með að það verði vel mætt á leikinn og ástandið verði orðið betra í heiminum en nú er,“ sagði Ólafur Andrés Guðmundsson einn leikreyndasti landsliðsmaður íslenska landsliðsins um þessar mundir þegar handbolti.is leitaði viðbragða hjá honum í gærkvöld við drættinum í riðla fyrir Evrópumeistaramótið í handknattleik karla.


Dregið var í gær og verður íslenska landsliðið í B-riðli í Búdapest með Ungverjum, Portúgölum og Hollendingum undir stjórn Eyjamannsins Erlings Richardssonar.


„Við hefðum getað verið heppnari en líka óheppnari með andstæðinga. Mér sýnist þetta geta orðið skemmtilegum riðill,“ sagði Ólafur Andrés.

Mikill áhugi

„Ungverjar eru mjög sterkir og verða væntanlega ennþá öflugri á heimavelli með miklum stuðningi áhorfenda. Það verður áhugaverður leikur og í mikilli stemningu. Ungverska liðið hefur verið vaxandi og er orðið mjög sterkt. Áhuginn fyrir handboltanum er mjög mikill í Ungverjalandi sem auka mun enn meira á stemninguna,“ sagði Ólafur Andrés.


Gert er ráð fyrir að ungverska landsliðið leiki alla sína leiki í keppninni í nýrri íþróttahöll sem verið er að leggja lokahönd á í Búdapest. Hún er reist fyrir mótið og á að verða vígi ungverska landsliðsins og landsliðanna á næstu árum. Höllin á að rúma 20.200 áhorfendur í sæti og verða stærsta handknattleikshöll Evrópu.

Þekkjast orðið vel

„Við erum farnir að þekkja Portúgala mjög vel og þeir okkur eftir hvern leikinn á fætur öðrum á síðustu mánuðum. Munstrið er stundum sérstakt í þessum heimi. Fyrir nokkrum árum voru við alltaf að lenda á móti Austurríkismönnum, bæði á mótum og í æfingaleikjum. Nú eru það Portúgalar sem við erum alltaf að glíma við,“ sagði Ólafur Andrés.
Auk tveggja leikja í undankeppni EM í byrjun þessa árs þá mættust landslið Íslands og Portúgals á HM í Egyptalandi í janúar og í milliriðlakeppni EM 2020 í Svíþjóð. Hvort lið hefur unnið tvær viðureignir af þessum fjórum.

Eru í sókn

„Hollendingar eru ekki jafn sterkir og Ungverjar og Portúgalar en hollenska liðið hefur farið vaxandi undanfarin ár og er með leikmenn í góðum liðum víða um Evrópu,“ sagði Ólafur Andrés og minnti m.a. á miðjumanninn, Luc Steins, liðsmann stórliðsins PSG í Frakklandi. „Það verður alls ekkert gefið gegn Hollendingum. Þegar komið er í lokakeppni EM þá er enginn leikur auðveldur. Það er stál í stál í öllum leikjum.”

Munar um hvern mann

Ólafur Andrés segir ennfremur að erfitt sé að spá í spilin meira en hálfu ári áður en flautað verður til leiks. Alls óvíst sé að segja hvaða leikmenn verða heilir heilsu þegar að mótinu kemur í janúar á næsta ári. „Hverjir verða heilir og hverjir ekki? Þegar liðin eru jöfn að getu þá munar um hvern leikmann af þeim bestu hjá öllum liðum keppninnar,“ sagði Ólafur Andrés Guðmundsson, landsliðsmaður í handknattleik og leikmaður Kristianstad í Svíþjóð, í samtali við handbolta.is.

Leikjadagskrá íslenska landsliðsins:
14. janúar: Ísland – Portúgal.
16. janúar: Ísland – Holland.
18. janúar: Ísland – Ungverjaland.

Tvö efstu liðin fara í milliriðil með liðum úr A og C-riðlum.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -