Handknattleiksmaðurinn Mathias Gidsel var í gær kjörinn íþróttamaður ársins í Danmörku í hófi danska íþróttasambandsins sem haldið var með glæsibrag í Jyske Bank Boxen í Herning á Jótlandi. Gidsel, sem valinn var besti handknattleiksmaður heims 2023 og 2024 af Alþjóða handknattleikssambandinu, hlýtur heiðurinn íþróttamaður Danmerkur í fyrsta sinn. Danskir handknattleiksmenn voru sigursælir á hátíðinni í gær.
Danska karlalandsliðið var kjörið íþróttalið ársins, þ.e. vann stærsta íþróttaafrek ársins, en viðurkenningin er veitt þeim einstaklingi eða hópi sem talinn er vinna stærsta íþróttaafrek Dana ár hvert. Karlalandsliðið varð heimsmeistari í fjórða sinn í röð á síðasta ári. Gidsel lék stórt hlutverk hjá landsliðinu eins og undanfarin þrjú ár auk þess að vera kjölfesta þýska liðsins Füchse Berlin er það vann meistaratitilinn í fyrsta sinn í vor sem leið.
Þetta er í þriðja sinn sem danska karlalandsliðið hreppir hnossið. Áður varð það fyrir valinu 2016 og 2019.
Fimmtán komu til álita
Í kjöri íþróttamanns ársins í Danmörku voru 15 íþróttamenn kallaðir en Gidsel varð hlutskarpastur. Í næstu sætum á eftir Gidsel voru hjólreiðamennirnir Jonas Vingegaard og Mads Pedersen.





