- Auglýsing -
„Ég bjóst nú alls ekki við níu marka sigri því Kría er með frábært lið og þess vegna gíraði ég mína menn upp í spennutrylli. Mér fannst þeir svara því mjög vel,“ sagði Jón Gunnlaugur Viggósson, þjálfari Víkings við handbolta.is eftir níu marka sigur Víkings á Kríu, 27:18, í slag liðanna í fyrsta og fjórða sæti deildarinnar í Hertzhöllinni á Seltjarnarnesi í kvöld.
Víkingar halda þar með áfram efsta sæti deildarinnar. Hafa nú 14 stig eftir átta leiki. „Við sýndum það svo sannarlega í leiknum af hverju við erum í toppbaráttu. Ég er mjög ánægður með strákana. Vörnin var frábær og undirbúningur okkar fyrir leikinn heppnaðist vel. Við fórum yfir síðustu leiki Kríu og kortlögðum þá þokkalega vel. Öll sú vinna skilaði sér fullkomlega,“ sagði Jón Gunnlaugur sem getur afar vel við unað með stöðuna í deildinni, sjö sigrar og eitt tap þegar deildarkeppnin er nærri því hálfnuð.
„Við erum bara hrikalega ánægðir með stigin tvö og halda toppsætinu. Deildin er erfið. Enginn leikur er auðveldur. Það höfum við fengið að reyna þótt vel hafi gengið. Okkur var spáð sjöunda sæti deildarinnar af fyrirliðum og forráðmönnum liðanna. Það er ljóst að við höfum komið á óvart til þessa. Hinsvegar megum við ekki gleyma okkur þótt staðan sé góð. Sjöunda sætið er ekki ennþá í höfn. Það er mikið eftir af keppninni. Framundan er að ná sjöunda sætinu og vinna okkur svo jafnt og þétt upp stigatöfluna. Við megum ekki fara fram úr okkur, heldur halda áfram að berjast. Við þurfum að hafa fyrir hverju stigi hér eftir sem hingað til,“ sagði Jón Gunnlaugur Viggósson, þjálfari Víkings, í samtali við handbolta.is í Hertzhöllinni í kvöld.
- Auglýsing -