Gísli Þorgeir Kristjánsson átti stórleik, skoraði átta mörk og gaf sjö stoðsendingar þegar SC Magdeburg vann Flensburg, 35:31, í toppslag þýsku 1. deildarinnar í handknattleik í Flensburg í kvöld. Hafnfirðingnum héldu engin bönd í leiknum.
Með sigrinum settist Magdeburg í efsta sæti deildarinnar með 21 stig eftir 11 leiki og er eina lið deildarinnar sem ekki hefur tapað leik. Flensburg er stigi á eftir og hefur auk þess leikið einum leik fleira.
Ómar Ingi Magnússon skoraði sex mörk fyrir Magdeburg, þrjú þeirra úr vítaköstum, auk þriggja stoðsendinga. Ómari var einu sinni vikið af leikvelli í tvær mínútur.
Elvar Örn Jónsson skoraði eitt mark og var einu sinni vísað af leikvelli. Elvar Örn fór á kostum í vörn Magdeburg.
Flensburg var tveimur mörkum yfir í hálfleik, 17:15. Liðið fékk hins vegar ekki rönd við reist þegar Magdeburg-liðið sýndi allar bestu hliðar sínar í síðari hálfleik, jafnt í vörn sem sókn.
Fyrr í dag vann Füchse Berlin lið THW Kiel, 32:29, og er í þriðja sæti með 18 stig eins og Kiel í þriðja til fjórða sæti með 18 stig.
Staðan í þýsku 1. deildinni:





