Gísli Þorgeir Kristjánsson átti enn einn stjörnuleikinn í dag með SC Magdeburg þegar liðið vann Füchse Berlin á heimavelli, 34:29, í þýsku 1. deildinni í handknattleik. Gísli Þorgeir skoraði átta mörk í tíu skotum og átti fimm stoðsendingar.
Hollendingurinn Kay Smits átti einnig frábæran leik. Hann skoraði 10 mörk í 10 skotum auk tveggja stoðsendinga. Smits hefur fengið stærra hlutverk hjá Magdeburg eftir að Ómar Ingi Magnússon meiddist í janúar og svo sannarlega staðið fyrir sínu. Smits gengur til liðs við Flensburg í sumar.
Nauðsynlegur sigur í toppbaráttu
Sigurinn var Magdeburg liðinu lífsnauðsynlegur í baráttunni við Berlínarliðið, Rhein-Neckar Löwen og THW Kiel í keppni liðanna um þýska meistaratitilinn. Magdeburg á titil að verja. Füchse Berlin, Rhein-Neckar Löwen og Magdeburg hafa tapað sjö stigum til þessa en Kiel sex stigum. Kiel á leik síðar í dag við lærisveina Rúnars Sigtryggssonar hjá Leizpig. Liðin fjögur hafa lokið misjafnlega mörgum leikjum.
Gamla brýnið Robert Weber var markahæstur hjá Füchse Berlin ásamt Dananum Mathias Gidsel. Þeir skoruðu sjö mörk hvor. Weber gekk á dögunum til liðs við Füchse Berlin þegar Hans Lindberg meiddist. Weber lék fyrir nokkrum árum með Magdeburg.
Til móts við landsliðið
Gísli Þorgeir kemur þar með í frábæru formi inn í íslenska landsliðið sem kemur saman í Brno í Tékklandi á morgun til undirbúnings fyrir leik við tékkneska landsliðið í undankeppni EM á miðvikudaginn.