Gísli Þorgeir Kristjánsson fór mikinn með SC Magdeburg í dag þegar meistararnir lögðu efsta lið þýsku 1. deildarinnar, MT Melsungen, 29:28, á heimavelli í skemmtilegum leik tveggja frábærra liða. Hafnfirðingurinn skoraði sjö mörk og gaf sex stoðsendingar. Komu Elvar Örn Jónsson og félagar í Melsungen engum böndum yfir kappann sem lék á als oddi.
Matthias Musche skoraði níu mörk fyrir SC Magdeburg og var markahæstur. Svíinn Fleix Claar, sem er nýlega mættur til leiks eftir langvarandi meiðsli, skoraði fimm mörk. Annars er sjúkralisti Magdeburg langur sem fyrr. Í ljósi þeirrar staðreyndar er sigur liðsins enn áhugverðari.
Elvar Örn, sem gengur til liðs við SC Magdeburg í sumar, skoraði fimm mörk fyrir Melsungen ásamt Lettanum Dainis Kristopans. Spánverjinn Ian Barrufet var markahæstur með níu mörk.
Arnar Freyr Arnarsson og Ómar Ingi Magnússon eru meiddir og voru þar af leiðandi ekki með liðunum í leiknum.
Hinn hálfíslenski Viktor Petersen Norberg skoraði tvö mörk og átti eina stoðsendingu þegar Wetzlar vann óvæntan sigur á THW Kiel á heimavelli, 27:25.
Viggó var ekki með
Viggó Kristjánsson lék ekki með HC Erlangen í dag þegar liðið tapaði á heimavelli fyrir HSV Hamburg, 35:29. Viggó kom meiddur á hné frá HM og virðist ekki hafa jafnað sig. Staða Erlangen heldur áfram að versna í næst neðsta sæti. Staðan í deildinni er neðst í fréttinni.
Lemgo krækti í óvænt stig í viðureign við Füchse Berlin 25:25.
Fimm marka tap í Flensburg
Í gærkvöld tapaði Gummersbach fyrir Flensburg á útivelli, 35:30. Elliði Snær Viðarsson skoraði fimm mörk fyrir Gummersbach. Teitur Örn Einarsson kom ekkert við sögu en hann hefur verið meiddur. Julian Köster var markahæstur af liðsmönnum Guðjóns Vals Sigurðssonar með sjö mörk.
Danirnir Simon Pytlick og Emil Jakobsen voru markahæstir hjá Flensburg með átta mörk hvor.
Staðan í þýsku 1. deildinni: